kastaníuhnetusteik með stökkri salvíu og kókosrjómalöguð sveppasósa


Mynd / Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann

Hnetusteikin er án efa orðin að klassískum hátíðarétti en ég hef sjálf ekki fundið tilbúna steik sem mig langar að borða ár eftir ár. Kastaníuhneturnar eru ómissandi í svona uppskrift en steikin er ótrúlega bragðgóð og næringarrík, full af hnetum, hörfræjum og góðu grænmeti. Það sem toppar steikina eru stökku salvíulaufin sem eru bæði ótrúlega góð á bragðið, stökk á áferðina og gullfalleg.


SVEPPASÓSA
Fyrir 4-6

2 laukar, smátt skornir
500gr íslenskir sveppir, skornir í sneiðar
2 dósir lífrænn kókosrjómi
4 msk lífræn tamari sósa
Fullt af pipar


Aðferð

Steikið laukinn upp úr góðri ólífuolíu þar til mjúkur og ilmandi. Bætið sveppunum út í og látið malla á miðlungshita. Leyfið sveppunum að mýkjast í rólegheitunum þar til mestur vökvi hefur gufað upp. Bætið kókosrjóma, tamari sósu og pipar út í. Hækkið örlítið hitann og látið malla þar til sósan þykknar.

UPPSKRIFT
Fyrir 4-6

2 laukar, fínt skornir
200gr íslenskar gulrætur, fínt skornar
2 stilkar sellerí, fínt skorið
4 hvítlauksrif, fínt skorin
2 msk tómatpúrra
4 msk mulin hörfræ, fyrir flaxegg
8 msk vatn, fyrir flaxegg
100gr brúnar eða grænar linsubaunir, soðnar
400gr grasker, gróflega skorið
400gr íslenskir sveppir, fínt skornir
200gr foreldaðar kastaníuhnetur, fínt skornar
100gr blandaðar hnetur, fínt skornar
4 msk lífrænt næringarger
2 msk lífræn tamarisósa
2 tsk lífrænt miso
2 msk ferskt rósmarín, fínt skorið
1 msk fersk salvía frá Vaxa, fínt skorin
S&P

200ml hágæða hitaþolin olía
200gr íslenskar gulrætur, örþunnt skornar
Lúka fersk salvíulauf


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c. Komið graskerinu fyrir í ofnskúffu með örlítilli olíu, salti og pipar. Bakið í u.þ.b. 15-20 mínútur eða þar til mjúkt í gegn. Látið kólna.
2. Sjóðið linsubaunirnar eftir leiðbeiningum. Sigtið, skolið og látið kólna.
3. Undirbúið flax eggið með því að blanda hörfræjunum saman við vatnið og hrærið vel. Áferðin þykknar á 5-10 mínútum. Geymið til hliðar þar til í síðasta skrefinu.
4. Steikið lauk, gulrætur, sellerí og hvítlauk ásamt örlítilli olíu þar til mjúkt og ilmandi. Bætið sveppunum út í og látið malla þar til mestur vökvi úr sveppunum hefur gufað upp. Stappið lauslega graskersbitana og linsubaunirnar svo áferðin blandist vel við restina af hráefnunum.
5. Bætið restinni af hráefnunum saman út í pönnuna, hrærið vel og látið malla í 10 mínútur. Látið kólna og blandið að lokum flax egginu við.
6. Undirbúið eldfast mót fyrir hnetusteikina með feiti eða bökunarpappír eftir smekk. Bakið steikina í 50 mínútur.
7. Hitið olíuna í potti eða pönnu og steikið gulræturnar og salvíulaufin þar til stökk. Gulræturnar taka u.þ.b. 10 mínútur. Salvíulaufin taka 1-2 mínútur. Látið kólna og þorna og toppið svo hnetusteikina.


Next
Next

ofnbakað rósakál og perur með kaldri tamari steikarsósu