Velkomin á matarvefinn fræ.com. Ég heiti Arna Engilbertsdóttir og opnaði fræ 1. janúar 2021 í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir náttúrulegan lífsstíl án dýraafurða. Fræ leggur ríka áherslu á gæði hráefna og heildræna matargerð þar sem grænmeti, ávextir, baunir, heilkorn og fræ eru í aðalhlutverki. Markmið fræ er að vekja jákvæða forvitni lesenda um náttúrulegri leiðir til að næra líkamann og mátt plönturíkisins.
Það voru alvarleg veikindi í æsku sem gáfu mér einstaka virðingu fyrir líkamanum mínum, bæði af nauðsyn og einlægum áhuga. Líkaminn er svakalega sterkur á sama tíma og hann er berskjaldaður fyrir utanaðkomandi aðstæðum, þar á meðal því sem við setjum ofan í hann. Þegar ég byrjaði að borða í takt við innsæið mitt og fókusa á heila plöntumiðaða fæðu með unna matvöru og óskiljanleg aukaefni í algjöru lágmarki lifnaði líkaminn minn einfaldlega við. Þó að margir ómissandi þættir komi að heilbrigðum lífsstíl var mataræði sá sem ég gat tileinkað mér áreynslulaust og í dag hef ég borðað plöntumiðað í u.þ.b. 7 ár.
Fræ fékk strax mjög hlýjar viðtökur en ýmsir miðlar eins og vísir, trendnet og gestgjafinn hafa gert umfjallanir um vefinn. Í febrúar 2022 ræddi ég einnig um lífsstílinn við Marín Möndu í Spegilmyndinni á Stöð2. Ég hef skrifað grænmetisuppskriftir í Gestgjafann síðan í desember 2022, þegar Græn jól birtust á forsíðu jólablaðsins. Ég er þakklát fyrir farsælt samstarf sem sjálfstætt starfandi uppskriftahöfundur og stílisti hjá blaðinu, með aðra forsíðu á júlíblaði 2023 Frá öllum heimshornum.
Fræ er fyrir alla sem langar að gera vel við sig í eldhúsinu og það er mín von að þú njótir þess að sækja þér innblástur hér - það er líka best í heimi að borða góðan mat!
Endilega hafið samband á netfangið arnaengilbertsdottir@gmail.com eða á instagram varðandi matarstíliseringar fyrir auglýsingar og herferðir, uppskriftir, samstörf eða einkasamkvæmi.