cacao hamingjubollinn
Þessi drykkur er einn af mínum allra uppáhalds og ekki skrítið að hann njóti svona mikilla vinsælda í vestræna heiminum í dag. Kakóið gefur milda og jafna orku inn í daginn sérstaklega seinni partinn til að forðast koffín. Hægt er að bæta ýmsu út í kakóið eins og kanil, örlítilli sætu og/eða heilsubætandi og orkugefandi rótum eins og Maca eða Ashwagandha. Það er mikið af upplýsingum um kakóið á netinu og ég hvet ykkur til að lesa meira um kakóplöntuna ef þetta kveikir áhuga ykkar! Í fyrra talaði ég við Önnu mína á trendnet um hamingjubollann og margir kannast eflaust við kakó seremóníur sem eru haldnar víða í dag en drykkurinn er talinn hjartaopnandi, skerpa athygli og auka vellíðan og hentar þess vegna mjög vel með hugleiðslu og annarri andlegri vinnu. Það er fátt jafn notalegt og að gera sér kakóbolla, setjast niður með dagbókina eða önnur verkefni og njóta þess að líða vel í rólegheitunum.
UPPSKRIFT
2,5 msk / u.þ.b 20gr lífrænt, hrátt cacao
1 bolli jurtamjólk
1/2 tsk kanill
örlítið af cayenne pipar
annað
rósir
maca rót
ashwagandha
lífrænt agave eða sæta eftir smekk
vanilla
*Kakóið fæst til dæmis á Luna Florens, kako.is, hjá Andagift, Systrasamlaginu, Ljósheimum og í Heilsuhúsinu ásamt fleiri stöðum.
*Hægt er að nota bæði vatn og/eða jurtamjólk, jurtamjólkin gerir kakóið kremað og mjög gott.
AÐFERÐ
1. Hitið mjólk eða vatn í potti en passið að hún sjóði ekki.
2. Mælið u.þ.b. 20gr af kakói fyrir hvern bolla. Notið blandara til að blanda öllum hráefnunum saman eða saxið kakóið og hrærið út í pottinn. Mér finnst fljótlegra að nota blandarann og áferðin á kakóinu verður örlítið þeytt.
3. Berið fram um leið og njótið ótrúlega vel.
Ceremonial cacao er alls ekki nýtt fyrirbæri en Mayar, Astekar og fleiri menningarhópar hafa notað kakóbaunina við athafnir í þúsundir ára bæði fyrir líkamlegan og andlegan ávinning. Plantan heitir Theobroma ‘‘fæða guðanna’’ cacao og vex í Mið- og Suður Ameríku, til dæmis í Guatemala. Kakóið er kallað Ceremonial grade cacao vegna þess hvernig bauninirnar eru meðhöndlaðar en þær eru alltaf lífrænt ræktaðar og gerjaðar til að bragðið njóti sín sem best. Gerjunin virkir einnig náttúruleg efnasambönd sem líkaminn nýtir sér. Baunirnar eru svo ristaðar og steinmalaðar með hefðbundum hætti en aldrei hitaðar upp eða meira unnar til að varðveita virkni þeirra og næringu. Kakóið er ríkt af andoxunarefnum, magnesíum, króm, kopar, kalki, mangan, zinc, sulfur, járni og fosfór. Kakóið inniheldur einnig taugaboðefni eins og serótónín, dópamín, anandamíð og fenýletýlamín (PEA) - sem hafa góð árhif á skapið okkar og vellíðan. Að lokum inniheldur kakóið þeóbrómín sem styrkir ónæmiskerfið, gefur orku og víkkar æðar og eykur þar með blóðflæði í líkamanum. Miðað við kaffi gefur kakóið mun mildari og jafnari orku. Þótt að kakóbaunin eigi sér langa sögu í athöfnum Maya sem lækningarjurt getum við í vestræna heiminum einnig notið hennar í okkar daglega lífi bæði til að skerpa athygli, í hugleiðslu og sem náttúrulegan orkugjafa enda ótrúlega góður og heilandi drykkur.