kjúklingabaunabollur í kókos curry
Mér finnst alltaf jafn gott að borða venjulegan mat eftir hátíðarnar og þessar kjúklingabaunabollur urðu fyrir valinu til að byrja Veganúar. Bollurnar eru örlítið stökkar að utan en mjúkar að innan og mjög bragðgóðar á móti kryddaðri karrýsósunni. Spíralaður kúrbítur passar mjög vel með heitum máltíðum og heldur sér vel þó að sósan blandist saman við hann. Fullkomin máltíð með fullt af ferskum vorlauk og kóríander til að toppa. Njótið ótrúlega vel!
UPPSKRIFT
u.þ.b. 30 bollur
1 msk hörfræ, mulin (fyrir flaxegg)
2 msk vatn (fyrir flaxegg)
2 msk lífræn ólífuolía
1 laukur, hakkaður
200gr íslenskar gulrætur, hakkaðar
3 hvítlauksrif, fínt skorin
Þumall ferskt engifer, fínt skorið
100gr valhnetur, hakkaðar
2 dósir lífrænar kjúklingabaunir, sigtaðar og hakkaðar
Lúka ferskt kóríander, saxað
2 msk lífræn tamari sósa
2 msk lífrænt næringarger
2 tsk kóríander
2 tsk cumin
Chili eftir smekk
Pipar
1 stór kúrbítur, spíralaður
Fullt af vorlauk
Kóríander
Kókos curry sósa
1 laukur, fínt skorinn
3 hvítlauksrif, fínt skorið
Þumall ferskt engifer, fínt skorið
1 msk curry paste eða Indversk karrýblanda frá Kryddhúsinu
1 dós lífrænir tómatar eða passata
1 dós lífræn kókosmjólk
1 lime, kreist
AÐFERÐ
Byrjið á þvi að undirbúa flaxeggið með því að blanda mulnum hörfræjum saman við vatn og hræra vel. Látið blönduna þykkna á meðan hin skrefin eru gerð.
2. Hakkið saman lauk og gulrætur í matvinnsluvél og hitið á pönnu ásamt hvítlauk og engifer þar til mjúkt og ilmandi. Bætið kryddum saman við ásamt tamari og næringargeri.
3. Hakkið valhneturnar í matvinnsluvélinni þar til áferðin verður fínleg og loks kjúklingabaunirnar líka.
4. Blandið öllum hráefnunum saman ásamt flaxeggi og hrærið vel. Leyfið deiginu að kólna og jafna sig í u.þ.b. 15 mínútur í ísskáp. Deigið þykknar örlítið og það verður auðveldara að forma bollurnar.
5. Hitið ofninn á 180*c, blástur og formið bollur u.þ.b. eina matskeið að stærð. Deigið er mjúkt en ef það formast í bollur er óþarfi að bæta þurrefnum við. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til gylltar og örlítið stökkar að utan. Ef bollurnar missa örlítið formið sitt í ofninum er ekkert mál að taka þær út og forma þær betur!Sósa
1. Steikið lauk, hvítlauk og engifer á pönnu þar til mjúkt og ilmandi. Bætið curry paste eða karrýblöndu við og hrærið vel.
2. Bætið kókosmjólkinni og tómötum út í.
3. Látið malla á lágum/miðlungs hita í u.þ.b. 15-20 mínútur eða á meðan bollurnar bakast.
4. Leggið bollurnar ofan í sósuna og berið fram með ferskum kúrbít, vorlauk og kóríander.