dumplings með tofu- & kimchi fyllingu


Mynd / Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann

Dumplingar koma í mismunandi formum hvort sem að deigið er heimagert eða tilbúið úr búð. Í þetta skiptið notaði ég deig sem var ferkanntað og gefur þar með formið sem sést á myndinni en allar týpur virka jafn vel. Tofu og kimchi fyllingin er ótrúlega bragðgóð og dumplingarnir dúnmjúkir. Toppið þá með sojasósunni sem er algjör nauðsyn með þessari máltíð.

UPPSKRIFT
U.þ.b. 20 dumplingar

1 pakki deig fyrir dumplinga
200gr lífrænt tofu, stíft, stappað fínlega niður
120gr kimchi frá Súrkál fyrir Sælkera, fínt skorið
2 hvítlauksgeirar, fínskornir
Þumall ferskt engifer, fínskorið
1 msk hágæða kaldpressuð olía eftir smekk
1 msk hágæða ristuð sesamolía
1 msk ristuð sesamfræ
2 stilkar vorlaukur, fínt skorinn
Örlítið salt

Sojasósa
70ml lífræn soja eða tamarisósa
70ml hrísgrjónaedik
1 msk hágæða ristuð sesamolía
2 tsk ristuð sesamfræ
1 hvítlauksgeiri, fínt skorinn
2 stilkar vorlaukur, fínt skorinn
Kóreskar chiliflögur eftir smekk


AÐFERÐ

1. Blandið öllum hráefnum í fyllinguna nema vorlauknum á pönnu og steikið miðlungs hita í u.þ.b. 10 mínútur. Bætið vorlauknum við og látið kólna.
2. Búið til sojasósuna á meðan með því að blanda öllum hráefnunum saman og hræra vel.
3. Fyllið deigið fyrir dumplingana samkvæmt leiðbeiningum, magnið getur verið breytilegt eftir formi og gerð deigsins en ég miða við rúmlega eina teskeið fyrir hvern.
4. Hægt er að matreiða dumplingana á þrjá vegu; gufusjóða, sjóða eða steikja á pönnu með góðri olíu. Ég mæli með að gufusjóða þá í u.þ.b. 10-15 mínútur eftir stærð en áferðin verður dúnmjúk og safarík.
5. Berið fram rjúkandi heita.


Arna Engilbertsdóttir