silkimjúkt sveppapasta


1C6031FD-AF2E-448A-AD0C-1B12855DA1D0-35D04FB5-8402-429B-BA67-34A4A02599CD.jpg

Þetta pasta er mjög kremað og silkimjúkt, alveg eins og það á að vera. Sósan inniheldur næringarger sem gefur keiminn af ostabragði. Eftir að ég prófaði jurtarjómann í þessari uppskrift hef ég ekki notað neitt annað í kremaðar sósur, mæli svo mikið með því að prófa hann. Mjög einföld og fljótleg uppskrift sem getur ekki klikkað.

UPPSKRIFT / fyrir 2-3

300gr pasta*
2x 200ml fernur kasjúrjómi**
1 askja/ 250gr sveppir
1/2 teningur sveppakraftur frá Kallo
3-4 hvítlauksrif
2 msk næringarger
1 msk oregano
Pipar eftir smekk
Fersk basilika

*
Ég notaði bókhveitipasta, það er náttúrulega glúteinfrítt. Fæst til dæmis í Vegan búðinni frá Doves Farm - vörulínan heitir Freee og býður upp á góðar, glúteinlausar vörur.
**
Af öllum jurtavörum sem ég hef prófað finnst mér kasjúrjóminn frá Ecomil vera lang bestur í pasta, hann helst kremaður og þynnist ekki út. Fæst til dæmist í Krónunni.


  1. Sjóðið pasta að eigin vali samkvæmt leiðbeiningum.
    2. Skerið sveppi í jafna bita og steikið ásamt örlítilli olíu. Bætið örlitlu vatni á pönnuna ef sveppirnir byrja að festast við botninn. Steikið sveppina vel þannig þeir byrja að brúnast örlítið.
    3. Pressið hvítlaukinn og bætið út í ásamt pipar eftir smekk.
    4. Bætið rjómanum á pönnuna ásamt sveppakrafti. Hrærið vel svo krafturinn leysist upp og látið malla í nokkrar mínútur. Passið að það komi ekki upp mikil suða.
    5. Bætið oregano og næringargeri út í og hrærið vel, næringargerið bráðnar í sósunni.
    6. Bætið tilbúnu pasta út í sósuna og berið fram með feskri basiliku og pipar. Njótið ótrúlega vel!

    Ég kaupi íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Næringarger er notað til að bragðbæta hina ýmsu rétti, ekki síst til að gefa keim af ostabragði. Það er til dæmis ótrúlega gott að strá því yfir bakað grænmeti, alla pastarétti og sósur. Næringarger er óvirkur gerill og virkar því ekki eins og ger sem er notað í bakstur. Vandað næringarger getur meðal annars verið ríkt af B-vítamínum, steinefnum ásamt nauðsynlegum amínósýrum.