núðlusúpa með miso & tofu
Uppskriftin af þessari núðlusúpu varð óvart til þegar ég var að smakka saman hráefni sem ég átti til í ísskápnum. Mér finnst gott að styðja mig við þennan súpugrunn en nota oft mismunandi núðlur og grænmeti. Endilega prófið ykkur áfram með hvað ykkur finnst best að nota! Súpan tekur enga stund í pottinum og er ótrúlega góð. Smakkið til og þróið ykkar bestu súpu.
UPPSKRIFT / fyrir 3-4
súpugrunnur
1 dós kókosmjólk
4 bollar vatn
3 hvítlauksrif
1/2 teningur lauk kraftur*
2 msk miso**
2 msk gult curry paste
2 msk tamari
Chili flögur eftir smekk
u.þ.b. 200 - 250gr hrísgrónanúðlur
450gr tofu
1 fínskorin paprika
1/2 lime
1 ferskt chili eða eftir smekk
Vorlaukur eftir smekk
Kóríander eftir smekk
Sesamfræ og muldar kasjúhnetur
*Ég nota Kallø grænmetiskraft
**Lífrænt miso úr kjúklingabaunum frá Miso Master, fæst í Vegan búðinni.
AÐFERÐ
Byrjið á því að leggja hrísgrjónanúðlurnar í bleyti með því að hella sjóðandi vatni yfir þær. Þessi aðferð kemur í veg fyrir að núðlurnar festist saman og verða líka passlega mjúkar í gegn. Látið þær liggja í sjóðandi vatni á meðan súpan er gerð. Ef þið notið aðrar núðlur, sjóðið samkvæmt leiðbeiningum.
2. Blandið kókosmjólk, vatni, krafti, hvítlauk, miso og curry paste í pott á miðlungs hita. Fáið upp væga suðu og hrærið vel til að leysa upp kryddin.
3. Skerið tofu niður í bita og paprikuna í þunnar sneiðar ásamt fersku chili.
4. Þegar súpan hefur blandast vel saman og farin að ilma, bætið tofu út í ásamt tamari eða soya sósu.
5. Látið malla með lokið á í nokkrar mínútur.
6. Berið súpuna fram með lime, vorlauk, kóríander, sesam fræjum og muldum kasjú- eða salthnetum. Það er líka ótrúlega gott að bæta við spírum og rífa niður gulrætur.
Njótið vel!
Miso er aldagamalt hráefni sem kemur frá Japan en er einnig stór hluti af sögu matargerðar víðast hvar í Asíu. Hægt er að nota hráefnið á ýmsan hátt, meðal annars í súpur og sósur til að dýpka bragðið af því sem verið er að matreiða. Matvæli sem eru þekkt fyrir að veita ‘‘umami’’ bragð eins og miso, soyasósa, sake er gerjað með Koji. Hægt er að nota mismunandi korn og baunir til að búa til Koji en það er vafalaust þekktast fyrir að innihalda hrísgrjón eða soyabaunir. Til að búa til Koji er kornið/baunirnar gufusoðið og látið gerjast með sveppnum A. oryzae. Á volgum, rökum stað nærist sveppurinn á korninu eða baununum og notar ensím til að brjóta niður kolvetni og prótein. Þessi gerjaða blanda eða Koji er svo notuð sem ‘‘start’’ ásamt salti til að gerja mismunandi hráefni og búa til miso eða aðrar matvörur. Lífrænt, hágæða miso er ótrúlega ríkt af vítamínum og steinefnum ásamt góðgerlum sem geta haft jákvæð áhrif á meltinguna okkar. Það er mikilvægt að skoða gæði vörunnar, innihaldslýsingar og saltmagn til að líkaminn okkar njóti allra þeirra góðu kosta sem miso hefur upp á að bjóða.