linsubaunir & sveppir
Linsubaunir eru sérstaklega einfaldar og fljótlegar í matreiðslu og fullkomnar í pottrétti. Þessi uppskrift er ótrúlega góð og kremuð en sveppirnir passa mjög vel með þessari áferð. Á myndinni er einnig bakað rósakál en ég mæli hiklaust með að bera réttinn fram með bökuðu grænmeti. Þessi getur ekki klikkað, toppið með fullt af ferskum pipar og njótið vel!
UPPSKRIFT / fyrir 2
1 laukur
1 dós kókosmjólk
1 askja/250gr sveppir
1,5 bolli grænar/brúnar linsubaunir
1 bolli vatn
1 teniningur sveppakraftur*
3 hvítlauksrif
1 msk frönsk kryddblanda/herbs de province
Pipar eftir smekk
*Mér finnst best að nota lífrænan kraft frá Kallo.
AÐFERÐ
1.Byrjið á því að fínskera lauk og steikja með góðri olíu á vægum hita þangað til hann verður glær og ilmandi.
2. Skerið sveppina í þunnar sneiðar og bætið út í, hækkið hitann örlítið. Ef þeir byrja að festast við botninn er gott að setja smá vatn í staðinn fyrir meiri olíu.
3. Bætið við hvítlauk og pipar þegar sveppirnir eru byrjaðir að mýkjast. Haldið áfram að steikja sveppina þar til þeir hafa minnkað örlítið í stærð og virðast eldaðir í gegn.
4. Bætið linsubaununum út í ásamt kókosmjólkinni, einum bolla af vatni, sveppakrafti og kryddblöndunni.
5.Hrærið vel saman og fáið upp væga suðu. Setjið lok fyrir og látið malla í 15-20 mínútur. Fylgist með hvernig linsubaunirnar eldast. Bætið smá vatni út í ef blandan er orðin of þykk.
6. Linsubaunirnar ættu að verða mjúkar en ekki soðnar í mauk. Þegar blandan hefur þykknað örlítið og minnir frekar á risotto heldur en þunnu, vatnskenndu áferðina í byrjun er pottrétturinn tilbúinn.
Ég kaupi íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.