tofu í kókos curry


Mynd / Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann

Tofu í kókos curry er svo fullkominn haust- og vetrarmatur þegar farið er að kólna og dimma. Fullt af fersku grænmeti ásamt mjúku tofu og bragðgóðri sósu passa til dæmis mjög vel með quinoa til hliðar ásamt ferskum kryddjurtum. Það er ekki hægt að fá leið á þessari uppskrift.

UPPSKRIFT / fyrir 2-3

1 laukur, fínt skorinn
2-3 msk rautt curry paste
1/2 tsk lífrænt túrmerik
3 lárviðarlauf
1 dós lífræn kókosmjólk
450gr lífrænt tofu, skorið í litla teninga
160gr frosnar lífrænar rænar baunir / 2 dósir lífrænar kjúklingabaunir
2 rauðar paprikur, skornar í lengjur
100gr ferskar sykurbaunir
S&P

Mynta
Kóríander
Kókosflögur


AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að steikja laukinn á vægum hita með örlítilli olíu eða vatni og bætið svo curry paste út í.

  2. Bætið kókosmjólk, lárviðarlaufi, tofu teningum, papriku og grænum baunum og sykurbaunum. Saltið og piprið eftir smekk og látið malla við væga suðu í u.þ.b. 20 mínútur.

  3. Toppið með lífrænum kókosflögum, kóríander og myntu.


Ég kaupi íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Hvað er tofu?
Tofu á ættir sínar að rekja til Kína og er búið til úr soyabaunum. Baunirnar eru lagðar í vatnsbað og svo hitaðar upp. Næst er vökvinn eða soyamjólkin sigtuð frá og eftir liggja mjúkar baunir sem er hægt að pressa í kubba. Tofu er að vissu leyti unnin matvara því baunirnar eru komnar í annað form en þær voru upprunalega, þrátt fyrir að öll næringagildi baunanna skili sér í tofu-ið. Með því að kaupa óerfðabreyttar, lífrænar og sem minnst unnar soya vörur tryggjum við að baunirnar gefi okkur það besta sem þær hafa upp á að bjóða. Þær eru próteinríkar af náttúrunnar hendi og innihalda allar nauðsynlegar amínósýrur ásamt fjölda vítamína og steinefna. Fyrir áhugasama er hægt að lesa nánar um kosti og galla soya hér.


Arna Engilbertsdóttir