íslenskir heirloom tómatar með kasjúfeta
Heirloom tómatar eru mun stærri en venjulegir tómatar og eru þekktir fyrir að vera frekar ólögulaga, marglita og ‘‘kjötmeiri’’. Þeir halda sér þess vegna sérstaklega vel í salati eins og þessu en ég get líka ímyndað mér að sama uppskrift væri æði með grilluðum tómötum. Kasjúfeta osturinn kom mér skemmtilega á óvart en ég forðast vanalega vegan osta nema þeir séu gerðir úr möndlum eða hnetum - mjög skemmtileg tilbreyting af og til. Einföld sinneps vínagretta ásamt íslenskri basiliku til að toppa diskinn. Tómatarnir eru svo góðir að það myndi líka nægja að hella góðri ólífuolíu yfir þá og salta og pipra. Svona gott hráefni nýtur sín alltaf vel! Ótrúlega ferskt og gott sem forréttur, á ristað brauð eða sem meðlæti. Njótið vel.
UPPSKRIFT
4 stórir heirloom tómatar
kasjúfeta frá I AM NUT OK
fersk basilika
ólífur
sinneps vínagretta
2 msk góð ólífuolía
1 msk eplaedik
1 tsk gróft sinnep
1/2 sítróna
1 lítill hvítlauksgeiri
S&P
*I AM NUT OK ostarnir fást í Vegan búðinni
*Ég nota alltaf ólífuolíuna BIO frá Olifa með svona fersku hráefni
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að blanda öllu saman í vínagrettuna. Pressið hvítlaukinn út í og saltið og piprið eftir smekk.
2. Skerið tómatana í þunnar jafnar sneiðar.
3. Hellið örlítið af vínagrettunni á tóman disk og raðið svo tómötunum á diskinn.
4. Rífið niður basiliku og skreytið ásamt ólífum og kasjúfeta.
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.