ferskt hrásalat með engifer vínagrettu
Ég elska fátt jafn mikið og stökkt, ferskt salat með öllum mat. Þetta hrásalat er fullkomið yfir vetrarmánuðina þegar íslenska hvítkálið fæst í búðunum. Engifer er alltaf gott fyrir kroppinn, sérstaklega ef það er eitthvað kvef að ganga. Engifer vínagrettan í þessari uppskrift er mjög einföld og passar ótrúlega vel við stökkt hvítkálið. Saman minnir salatið örlítið á núðlur með asísku yfirbragði en ég get ímyndað mér að þetta komi sér vel sem ‘‘núðlugrunnur’’ fyrir þá sem vilja allt eins ferskt og hægt er! Annars passar hrásalatið með ótrúlega fjölbreyttum mat - til hliðar eða blandað með öðru.
UPPSKRIFT
u.þ.b. 200gr íslenskt hvítkál
2 stórir stilkar vorlaukur
kóríander eftir smekk
sesamfræ eftir smekk
engifer vínagretta
2 msk ristuð sesamolía
2 msk hrísgrjónaedik
lítill þumall engiferrót
*Ég nota alltaf sesamolíu og fleira í asískum dúr frá Clearspring, vörurnar eru lífrænar og ótrúlega góðar.
AÐFERÐ
1. Fínskerið eða rífið hvítkálið niður. Ég mæli með að prófa mandólín fyrir allt sem er svona þunnskorið eða rifið.
2. Fínskerið vorlauk og kóríander.
3. Blandið saman sesamolíu og hrísgrjónaediki og sesamfræjum. Rífið engifer niður í litlu rifjárni eða pressið í hvítlaukspressu.
4. Blandið öllu saman og njótið vel!
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.