kalt núðlusalat með sesam & engifer


Ég elska fátt meira en stór salöt með asísku yfirbragði. Þetta salat er mjög fljótlegt en ég keypti það grænmeti sem var ferskast í búðinni - íslenskar gulrætur, rauðkál, gúrku og spírur ásamt stökkum sykurbaunum. Mér finnst best að fínskera svona gróft grænmeti eins og gulrætur og rauðkál svo það blandist vel með öllu og það sé ánægjulegt að borða það. Með salatinu gerði ég létta sesam og engifer dressingu sem passar ótrúlega vel við og leyfir bragðinu af öllu grænmetinu að njóta sín líka. Ég bætti við sólblómafræjum frá Pimp my salad með wakame, spirulínu, kelp og fleiri góðum hráefnum til að ýta undir asíska yfirbragðið - þetta er frábær leið til að bæta sjávargrænmeti á diskinn en það er svo ótrúlega næringarríkt og frábær fæða, ég mæli mjög mikið með því að prófa þetta.

UPPSKRIFT

170gr núðlur
200gr gulrætur
100gr sykurbaunir
100gr gúrka
100gr rauðkál
vorlaukur eftir smekk
salthnetur / hnetur eftir smekk
spírur eftir smekk
pimp my salad - seaweed superfoods

sesam & engifer dressing
3 msk hrísgrjónaedik
3 msk tamari / soja
2 msk ferskt engifer / 1/2 tsk engifer krydd
2 msk sesamfræ
1 hvítlauksrif
1 tsk chili sambal / sriracha
örlítið döðlusýróp / agave

*Hægt að nota hvaða núðlur sem er, ég notaði lífrænar núðlur úr brúnum hrísgrjónum hér.
*Pimp my salad er snilld til að strá yfir allskonar mat, ýmist með fræjum, hnetum og öðrum góðum hráefnum. Fæst í Vegan búðinni.


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að sjóða vatn og hella yfir núðlurnar. Látið þær liggja í sjóðandi vatninu á meðan grænmetið er undirbúið. Mér finnst best að elda núðlur á þennan hátt, þá ofeldast þær ekki og verða ekki klístraðar. Ef núðlurnar eru þykkar er gott að bæta við sjóðandi vatni aftur eftir nokkrar mínútur. Fylgist með þeim - skolið með köldu vatni þegar þær eru tilbúnar.
2. Skerið niður allt grænmetið ásamt vorlauknum og hnetunum. Ég notaði mandólín en rifjárn og fleira sambærilegt hentar líka vel til að fá svipaða áferð.
3. Kreistið hvítlauk og engifer og blandið öllum hráefnum saman í sósuna.
4. Blandið öllu saman í salatið og hellið sósunni yfir.
Njótið ótrúlega vel!


Það er ótrúlega flott úrval af íslensku grænmeti í búðum núna, ég nota íslenskar og/eða lífræn hráefni eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Arna Engilbertsdóttir