heimagerðar eggaldinbollur & hrásalat
Þessar bollur eru ótrúlega góðar með asísku ívafi og passa vel með salötum, núðlum eða sem fingramatur á veisluborðið. Ég elska að nota eggaldin í svona uppskriftir vegna þess að eggaldinið er þétt í sér og dregur í sig mikið bragð. (Note: marinerið eggaldin og grillið!) Það kemur á óvart hversu auðvelt er að gera svona heimagerðar bollur, falafel og buff - oftast nægir að hakka allt saman og baka en á sama tíma veit maður nákvæmlega hvað er í þeim. Í þetta skiptið gerði ég fljótlegt salat með sesamfræjum sem kom mjög vel út og lét bollurnar vera í aðalhlutverki.
UPPSKRIFT / 22-24 bollur
u.þ.b. 600gr eggaldin / 2 miðlungs
1 krukka kjúklingabaunir
2 msk lífræn sesamolía
2 msk lífrænt hveiti
1 lime
2 stilkar vorlaukur
15gr kóríander
2 hvítlauksrif
1,5 msk sesamfræ
1 tsk engifer
1 tsk hvítur pipar
1/2 tsk chili
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk pipar
hrásalat
150gr gulrætur
150gr rauðkál
asískt baby leaf frá Vaxa
2 stilkar vorlaukur
sesamfræ
sesam- eða eða teriyaki sósa frá Nojo
*Ég kaupi sjaldan tilbúnar sósur eða salat dressingar en sósurnar frá Nojo eru ótrúlega góðar og með hrein innihaldsefni. Ég hef bara séð þær í Vegan búðinni og hef prófað margar þeirra, mæli mjög mikið með!
*Það er einnig hægt að nota brúnt hrísgrjónahveiti og glútenlaust, mér finnst niðurstaðan mjög svipuð!
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c.
2. Hreinsið utan af eggaldininu og skerið í sneiðar, saltið og piprið örlítið en ekki nota olíu strax. Bakið sneiðarnar í u.þ.b. 15 mínútur og látið kólna vel.
3. Blandið gróflega saman kjúklingabaunum, öllum kryddunum, sesam olíu og hveitinu - bætið svo eggaldin sneiðunum síðast. Kreistið lime-ið og notið rifjárn til að fá örlítinn börk eða ‘‘zest’’ með. Passið að blanda ekki of vel því þá verður til háfgerður hummus! Látið deigið taka sig í ísskápnum í 20 mínútur.
4. Formið bollur með u.þ.b. einni matskeið af deigi. Áferðin er klístruð en ef bollan helst saman er það allt í lagi. (Ef deigið er alltof blautt er gott að bæta einni matskeið af hveiti við). Bakið í 30-40 mínútur og snúið við þegar hálfnað.
5. Rífið niður gulrætur og rauðkál og blandið við asískt baby leaf, vorlauk og sesamfræ. Notið sósu eftir smekk og berið bollurnar fram með salatinu.
Njótið vel!
Eggaldin á rætur sínar að rekja til Suðaustur- Asíu og var einnig notað í Afríku áður en plantan var ræktuð í Evrópu. Eggaldin er í raun ávöxtur en áferðin er þétt eins og svampur og dregur vel í sig bragð. Það er trefjaríkt og inniheldur meðal annars B vítamín, kalíum, kopar, magnesíum og mangan ásamt andoxunarefnum. Prófið ykkur áfram með eggaldin í matargerðinni - bakið, grillið, gerið bollur og Baba ghanoush.