stökkt kjúklingabaunasalat & sumac dressing


Ég elska fátt jafn mikið og fersk salöt en þessi uppskrift er skemmtileg tilbreyting frá þeim venjulegu. Það er ekkert kál í salatinu en stökkar kjúklingabaunirnar og quinoa fá að njóta sín enn betur í staðinn. Rauðlaukurinn er marineraður í sumac dressingu og gefur salatinu Mið-Austurlenskan brag. Toppið með myntu og kóríander eða jafnvel steinselju ef hún er til í ísskápnum.

UPPSKRIFT / fyrir 2-4

2 dósir lífrænar kjúklingabaunir
u.þ.b. 130gr quinoa
1 granatepli
1/2 rauðlaukur
lúka af ferskri myntu og kóríander
malað chili eftir smekk
S&P

sumac dressing
1/2 msk sumac krydd
1/4 bolli hágæða ólífuolía
1/4 bolli lífrænt eplaedik
S&P

*Ég hef bara séð sumac krydd frá Kryddhúsinu í matvörubúðum á Íslandi en ég mæli ótrúlega mikið með kryddunum þeirra. Þau eru framandi og bjóða okkur upp á ný brögð sem tíðkast ekki í íslenskri matarmenningu.


AÐFERÐ

1. Hitið ofninn á 180*c, blástur.
2. Byrjið á því að blanda dressinguna. Skerið laukinn í þunnar sneiðar og látið marinerast á meðan restin af salatinu er gerð.
3. Sjóðið quinoa samkvæmt leiðbeiningum.
4. Skolið og sigtið kjúklingabaunirnar og komið þeim fyrir á ofnskúffu eða í stórt mót svo hægt sé að slétta úr þeim. Kryddið með örlítilli olíu, chili flögum og S&P. Bakið í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til gylltar og stökkar.
5. Losið kjarnana úr granateplinu.
6. Skerið niður myntu og kóríander
7. Blandið öllu saman ásamt rauðlauknum og restinni af sumar dressingunni.
Njótið ótrúlega vel!


Sumac er eitt þekktasta krydd Mið- Austurlanda og á rætur sínar að rekja til Rómarveldis. Kryddið hefur verið notað í þúsundir ára sem lækningajurt, meðal annars fyrir sótthreinsandi eiginleika þess en það er einnig ríkt af andoxunarefnum. Sumac kyddið hefur djúprauðan lit er gert úr rauðum berjum sem vaxa víða um Miðjarðarhafssvæðið. Kryddið á sér ríka sögu í matargerð margra landa enda ótrúlega bragðgott og setur svip sinn á fjölbreytta rétti.


Arna Engilbertsdóttir