fyllt grasker með kastaníuhnetum & trönuberjasósu


Mynd / Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann

Af einhverri ástæðu finnst mér bakað grasker passa svo vel yfir hátíðarnar en ég hef gert mismunandi útgáfur af því síðastliðin ár og skapað smá hefð með því. Fyllingin er bragðmikil með sveppum og kastaníuhnetum en þegar þær eru eldaðar breytist áferð þeirra talsvert og verður kjötmeiri. Þurrkuðum trönuberjum er blandað við fyllinguna ásamt íslensku timjan og graskerið er svo toppað með ferskri trönuberjasósu sem fær skærbleikan lit og súran keim þegar berjunum og rauðvínsedikinu er blandað saman.

UPPSKRIFT

1 stórt grasker

Fylling
1 laukur, fínt skorinn
2 hvítlauksrif
1 askja íslenskir sveppir, fínt skornir
80gr foreldaðar kastaníuhnetur, fínt skornar
2 msk þurrkuð trönuber, fínt skorin
2 msk lífrænt næringarger
2 msk Arctic Thyme frá Íslenskri Hollustu
1 msk tómatpúrra
1 msk sinnep
1 msk lífræn tamari eða sojasósa

Trönuberjasósa
1/4 bolli fersk trönuber
4 msk lífræn hágæða ólífuolía
3 msk hágæða rauðvínsedik
3-4 msk vatn
1 msk sinnep
1 tsk lífrænt agave síróp
2 döðlur
S&P


AÐFERÐ

1. Byrjið á á hita ofninn á 180*c, blástur. Skerið grasgerið í tvennt og hreinsið fræin innan úr. Skerið grunnar renndur í báða bátana og nuddið örlítilli hitaþolinni olíu á yfirborðið. Saltið og piprið. Bakið í u.þ.b. 60 mínútur eða eftir stærð. Graskerið fær gyllta og fallega áferð.
2. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu og bætið svo sveppum og kastaníuhnetunum út í. Kryddið með thyme, næringargeri, tómatpúrru, sinnepi og tamari. Saltið og piprið eftir smekk. Látið malla í nokkrar mínútur. Bætið söxuðum trönuberjum við blönduna í lokin.
3. Blandið öllum hráefnum saman í trönuberjasósuna í NutriBullet. Bragðið verður örlítið súrt og liturinn fallega bleikur.
4. Takið graskerið út úr ofninum og komið fyllingunni fyrir. Berið fram heitt.


Previous
Previous

ferskt rósakálssalat með kasjú- & graslaukssósu

Next
Next

bökuð ostrusveppasteik með rósmarín