pikklað rauðkál með eplum & heslihnetum


Þessi uppskrift er smá twist á klassíska rauðkálið en mér finnst alltaf betra að hafa hráefnin eins fersk og hægt er. Kanilstöngin og engiferið gefa smá auka bragð og gera kálið enn jólalegra. Eplin eru ótrúlega góð viðbót við rauðkálið og heslihneturnar gera salatið bæði fallegt og smá crunchy. Þetta meðlæti passar með öllum jólamat - sérstaklega portobello wellington! Ég nota alltaf eplaedik til að pikkla í svona stuttan tíma en það er að sjálfsögðu hægt að nota venjulegt edik líka. Ef ykkur finnst edikið of sterkt þegar búið er að pikkla kálið er í góðu lagi að sigta það og skola örlítið áður en eplunum er blandað við.

UPPSKRIFT

250gr íslenskt rauðkál
1 bolli lífrænt eplaedik
1 bolli vatn
2 cm engifer
1 kanilstöng
2 lífræn epli
Heslihnetur / heilar eða malaðar


AÐFERÐ

1. Setjið edikið, vatnið, engifer og kanilstöng í pott og fáið upp væga suðu. Látið malla í 2-3 mínútur.
2. Fínskerið rauðkálið.
3. Látið edikblönduna kólna og hellið svo yfir rauðkálið - takið burt engifer og kanilstöngina. Geymið í ísskáp í 1-2 klst á meðan kálið pikklast.
Blandan geymist lengi og vel í ísskápnum, passið bara að ílátið lokist vel og að vökvinn nái yfir kálið.
4. Skerið eplin niður rétt áður en rauðkálið er borið fram til að halda öllu eins fersku og hægt er. Sigtið kálið frá edikinu og blandið saman. Myljið hneturnar yfir til að toppa og njótið ótrúlega vel!


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Arna Engilbertsdóttir