saltbökuð seljurót með kaldri za’atar kasjúsósu
Þessi uppskrift er fullkomin sem forréttur til að deila. Diskurinn er með fáum innihaldsefnum, hægt að gera fram í tímann og hefur mjög hátíðlegt yfirbragð. Útlitið minnir á carpaccio sem er svo skemmtileg leið til að bera fram meðlæti. Hýðið er örlítið stökkt og gefur saltbragð á móti sætum döðlum og ótrúlega góðri za’atar kasjúsósunni. Fyrir fleiri valmöguleika er líka frábært að toppa með ristuðum furuhnetum og balsamic.
UPPSKRIFT
meðlæti fyrir 4-6
1 meðalstór seljurót
1/2 tsk salt
1 tsk lífræn jómfrúar ólífuolía
1 askja klettasalat frá Vaxa
Lífrænar döðlur
Za’atar kasjúsósa
1/2 bolli lífrænar kasjúhnetur
2 msk Za’atar blanda frá Kryddhúsinu
1 msk lífrænt eplaedik
1/2 sítróna
1 hvítlauksrif
S&P
AÐFERÐ
1. Hitið ofninn á 180*c, blástur.
2. Skerið þvert neðan af seljurótinni þannig að hún standi upprétt. Haldið hýðinu á en skolið og þerrið vel. Nuddið með salti og olíu og pakkið inn í bökunarpappír. Bakið í u.þ.b. tvær klst eða þar til hægt er að stinga gaffli auðveldlega í gegn.
3. Setjið öll hráefni sósunnar í kröftugan blandara eins og NutriBullet og blandið þar til áferðin er silkimjúk. Þynnið sósuna með örlitlu vatni og hafið þykktina eftir smekk.
4. Látði seljurótina kólna við stofuhita og skerið svo örþunnar sneiðar. Hýðið hefur nú fengið á sig saltaða skorpuáferð sem passar vel á móti mjúkri miðjunni. Raðið á disk og toppið með klettasalati, döðlum og za’atar kasjúsósunni.
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.