bakað grænkál með himalaya salti


Grænkál er ekki kallað ofurfæða að ástæðulausu en það er ríkt af A, C og K vítamínum ásamt fjölda steinefna og andoxunarefna. Áferðin er hins vegar ekki eins og á venjulegu salat-káli heldur er hún þéttari og þykkari og mér finnst skipta töluverðu máli hvernig kálið er undirbúið. Þegar kálið er bakað þornar það upp og verður stökkt eins og snakk en saltið gerir líka ótrúlega mikið fyrir bragðið. Himalaya salt er ríkt af steinefnum og gefur aðeins meira salt bragð en sjávarsalt. Þessi tvenna passar ótrúlega vel saman sem meðlæti, snakk eða stráð yfir mat. Ég mæli ótrúlega mikið með, njótið vel!

UPPSKRIFT

150gr íslenskt grænkál
1 tsk hágæða olía
himalaya salt

*Passið að nota ekki of mikla olíu, þá verður kálið of mjúkt og heppnast ekki jafn vel í ofninum.


AÐFERÐ

1. Hitið ofninn á 180*c, blástur.
2. Rífið grænkálið af stilkunum í jafna bita.
3. Nuddið kálið vel með olíunni. Saltið örlítið.
4. Dreifið vel úr kálinu á ofnskúffu eða eldfast mót. Bakið í 10-15 mínútur þar til stökkt. Fylgist vel með svo það brenni ekki.


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Arna Engilbertsdóttir