ristað nori með sesam & salti


562E1117-A4BC-4B46-AF06-A00D6BDC5813-13C0ED3B-7F62-4816-B7DF-0A3804DEB6D0.jpg

Það þarf varla að kynna roasted seaweed fyrir neinum enda besta snakk í heiminum. Ég prófaði þess vegna að rista nori blöð á pönnu og það heppnaðist ótrúlega vel. Nori-ið verður stökkt við hitann af pönnunni en sesamolían og saltið gerir það að geggjuðu snakki sem gefur því tilbúna ekkert eftir að mínu mati. Þessi uppskrift þarf alls ekki að vera nákvæm en allra best er að losna við fyrirferðarmiklu plastumbúðirnar.

UPPSKRIFT

6 nori blöð
1 - 1,5 msk lífræn sesamolía
sesamfræ eftir smekk
salt eftir smekk

*Hingað til hef ég ekki fundið lífrænt nori á Íslandi - ég panta það á iherb.com frá Earth Circle Organics. Nori sem er til í flestum verslunum hér heima heitir sushi nori og virkar vel. Skoðið endilega gæði vörunnar.


AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að hita pönnu á miðlungs til háan hita.
    2. Pennslið nori blöðin með sesamolíunni - mér finnst nóg að setja olíu á eina hlið en prófið ykkur endilega áfram.
    3. Stráið sesamfræjum og salti yfir blöðin.
    4. Setjið eitt blað í einu á pönnuna og þrýstið örlítið á það með sleikju eða spaða. Nori-ið tekur á sig grænni lit og minnkar örlítið í stærð.
    5. Snúið við og fylgist með að blaðið brenni ekki - það ætti að taka örfáar sekúndur að fá stökka áferð og græna litinn.
    6. Brjótið nori blöðin í 4 hluta og berið fram.


Nori er tegund af sjávargrænmeti sem tilheyrir rauðþörungum og hefur verið kennt við Japan frá fornöld. Nori vex náttúrulega í köldum, grunnum sjó við strendur víða en sjávargrænmeti er risa stór partur af matarmenningu í Kína, Kóreu og Japan. Eins og við þekkjum nori í dag er búið að rífa það niður, þurrka og pressa í þunn blöð. Blöðin eru langmest notuð utan um sushi en njóta einnig mikilla vinsælda sem snakk. Nori og fleira sjávargrænmeti er ríkt af joði og amínósýrunni týrósín sem bæði eru nauðsynleg fyrir virkni skjaldkirtils. Einnig er að finna járn, ýmis B vítamín, A og C vítamín og svo mætti lengi telja. Ég mæli innilega með því að skoða mismunandi týpur af sjávargrænmeti, það er nánast ótrúlegt hvað finnst mikið af mikilvægri næringu í því.


Previous
Previous

bakað grasker með chimichurri & spírum

Next
Next

kramdar kartöflur með rósmarín