pönnusteiktir ostrusveppir í tamari


Þvílík veisla að fá allskonar ferska sveppi á Íslandi sem voru varla sjáanlegir bara fyrir ári síðan. Þessir sveppir heita ostrusveppir (e.oyster mushrooms) og eru gullfallegir í laginu. Þeir innihalda fjölda vítamína og steinefna, til dæmis níasín/B3 og B5 vítamín. Í þessari uppskrift eru sveppirnir með asísku yfirbragði eins og svo oft áður (er eitthvað betra?) með tamari, hvítlauk, vorlauk og chili. Kryddið endilega eftir smekk og prófið ykkur áfram hvernig áferð ykkur finnst best á sveppunum. Sveppirnir passa sem meðlæti með allskonar mat, með núðlum og stórum djúsí salötum. Lykillinn er klárlega að borða þá strax á meðan þeir eru heitir.

UPPSKRIFT

250gr ostrusveppir
2 msk tamari
1 msk sesamolía / önnur góð olía
1 msk hrísgrjónaedik
3 stilkar vorlaukur
1-2 hvítlauksrif
sesamfræ
gochugaru / venjulegt chili

*Ég mæli ótrúlega mikið með því að skoða úrvalið af ferskum og umbúðalausum sveppum hjá Vegan búðinni.
*Ég nota tamari/soya og sesamolíu frá Clearspring, lang bestu vörur sem ég hef fundið hingað til!


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að hita pönnu á miðlungs hita og látið hana hitna vel.
2. Skerið ostrusveppina í jafna bita.
3. Blandið olíunni, tamari og hrísgrjónaediki saman ásamt hvítlauknum, sesam og chili. Hellið öllu út á pönnuna og látið sveppina verða vel gyllta á annarri hlið áður en þeim er snúið við. Mér finnst best að færa þá lítið til og reyni að láta alla sveppina snerta pönnuna svo þeir eldist jafnt og fái þessa gylltu, stökku áferð. Steikið alls í u.þ.b. 15 mínútur eða eftir smekk.
4. Bætið vorlauknum við þegar sveppirnir eru komnir vel á veg. Fylgist vel með að sveppirnir brenni ekki.
Berið fram um leið og njótið vel!


Arna Engilbertsdóttir