fylltar paprikur með quinoa & baunum
Þessar fylltu paprikur eru ótrúlega einfaldar og fljótlegar. Þær eru næringarríkar og léttar í magann en djúsí og ótrúlega bragðgóðar. Quinoa og svartar baunir gefa okkur góð kolvetni, trefjar og prótein ásamt fullt af vítamínum og steinefnum. Paprikurnar eru fullkomnaðar með guacamole, sýrðum jurtarjóma og lime - þessi máltíð er svoo góð.
UPPSKRIFT / fyrir 3
4 stórar paprikur
1/2 bolli quinoa*
1 dós svartar baunir / 240gr baunir
1 lítil dós gular baunir / 140gr baunir
4 íslenskir tómatar
1 lime
1/2 laukur
1 grænn chili
1 tsk paprikukrydd
1 tsk kúmen / cumin
1/2 tsk ancho chili eða reykt paprika
1/2 hvítlaukskrydd
S&P
guacamole
2 avocado
1/4 rauðlaukur
kóríander eftir smekk
1 lime
S&P
*Ég notaði rautt quinoa en það er líka hægt að nota hvítt. Eini munurinn er að dekkra quinoa er aðeins grófara heldur en það ljósa.
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c.
2. Sjóðið quinoa eftir leiðbeiningum.
3. Fínskerið laukinn og steikið á vægum hita með örlítilli olíu þar til mjúkur og ilmandi.
4. Skerið tómata í bita og bætið út á pönnuna.
5. Bætið paprikukryddi, kúmen, ancho chili/reyktri papriku og hvítlaukskryddi á pönnuna.
6. Sigtið quinoa, svartar baunir og gular baunir og bætið á pönnuna, hrærið vel.
7. Skerið paprikurnar í tvennt og hreinsið fræin úr þeim. Raðið í eldfast mót.
8. Fyllið paprikurnar og bakið í u.þ.b. 25 mínútur.
9. Stappið avocado, fínskerið rauðlauk og kóríander. Blandið saman og kreistið lime og bætið örlitlu salti og pipar.
10. Skerið niður lime og kreistið yfir paprikurnar þegar þær eru tilbúnar. Berið fram með guacamole, sýrðum jurtarjóma og ferskum chili.
Paprikur koma frá Mið- og Suður-Ameríku og eru í raun ávextir. Þær eru sérstaklega ríkar af C vítamíni ásamt K, A og E vítamínum, fólati og kalíum. C vítamín er kröftugt andoxunarefni sem ýtir undir upptöku járns úr fæðunni sem við borðum og hjálpar ónæmiskerfinu okkar að verjast sýkingum og bakteríum ásamt mörgu öðru. Paprikur eru náttúrulega sætar en hægt er að matreiða þær á marga vegu; hafa þær ferskar í salötum, baka þær eða steikja og ekki síst setja þær í pottrétti og súpur.
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.