fylltir tómatar með perlubyggi & kúrbít
Ég elska að fara í búðina og sjá ferska uppskeru af íslensku grænmeti og fá hugmyndir út frá því. Þessir tómatar eru stórglæsilegir og stútfullir af íslensku perlubyggi og kúrbít. Kryddað með fersku timjan og fjórum tegundum af piparkornum og bragðið er svo ótrúlega gott.
UPPSKRIFT / fyrir 4
1 laukur
4 hvítlauksrif
2 öskjur stórir íslenskir tómatar / 10 stk*
1/2 bolli / 100gr íslenskt perlubygg
1 meðalstór kúrbítur / 250 - 300gr
1 msk ferskt garðablóðberg/timjan/thyme
2 msk næringarger
chili flögur eftir smekk
salt + fjórar árstíðir pipar frá Kryddhúsinu
ólífur
70gr furuhnetur
*Íslensku tómatarnir eru sérstaklega stórir þessa dagana og líkjast buff tómötum en eru merktir eins og venjulega. Buff tómatar eru líka frábærir í þessa uppskrift vegna þess hversu stórir þeir eru.
AÐFERÐ
1. Hitið ofninn á 180*c.
2. Sjóðið perlubygg eftir leiðbeiningum.
3. Fínskerið lauk og kúrbít og mýkið á pönnu ásamt örlítilli olíu á miðlungs hita.
4. Skerið toppinn af tómötunum og losið kjarnann úr. Bætið kjarnanum út á pönnuna. Látið malla í nokkrar mínútur.
5. Skolið og sigtið perlubyggið og bætið út á pönnuna.
6. Bætið garðablóðbergi við með því að losa laufin af stönglunum. Saltið og piprið - ég notaði fjórar árstíðir frá Kryddhúsinu en það eru fjórar gerðir af piparkornum sem gefa ótrúlega gott bragð.
7. Bætið hvítlauk, næringargeri og chili flögum út á pönnuna og hrærið vel.
8. Fyllið tómatana með blöndunni og setjið toppinn á.
9. Bakið tómatana í 20-30 míútur eftir stærð þeirra. Þeir verða pínu krumpaðir og sætir.
10. Berið fram með ristuðum furuhnetum og ólífum.
Njótið ótrúlega vel!
Vissir þú að á Íslandi fer fram lífræn kornframleiðsla? Móðir Jörð framleiðir meðal annars bankabygg og perlubygg; frábært heilkorn ríkt af trefjum og fjölda vítamína og steinefna. Trefjar eru meðal annars nauðsynlegar fyrir góða meltingu og þá er mikilvægt að velja korn sem er lítið unnið eða svokallað heilkorn. Ég hvet ykkur til að prófa íslenska byggið, það passar með svo fjölbreyttum mat. Lesið meira um lífræna framleiðslu á Íslandi hér.