kjúklingabaunabaka


AfterlightImage.jpg

Kjúklingabaunabaka er líklega einn vanmetnasti réttur sem til er að mínu mati. Hún er ótrúlega mjúk og minnir helst á quiche eða spænska ommelettu en indverska saltið gefur sérstakt bragð sem einkennir bökuna. Kjúklingabaunabökur eru fullkomnar í hádegismat og á brunch borðið og eru alltaf jafn mikil snilld.

UPPSKRIFT / fyrir 4

1,5 bolli kjúklingabaunahveiti
1 bolli jurtamjólk
1 bolli vatn
1 miðlungs / u.þ.b. 250gr kúrbítur
3 kartöflur / u.þ.b. 200gr
4 íslenskir tómatar
1 tsk curry
1/2 tsk hvítlaukskrydd
Pipar eftir smekk
1/2 tsk indverskt salt / kala namak / black salt

*Indverskt salt fæst til dæmis í Jurtaapotekinu og Vegan búðinni.
*Kjúklingabaunahveiti fæst víða og heitir ýmist chickpea flour, gram, garbanzo eða besan.


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c.
2. Rífið kúrbítinn og kartöflurnar niður með rifjárni eða skerið mjög fínt niður.
3. Setjið kjúklingabaunahveiti í skál ásamt vatni, jurtamjólk og öllum kryddunum. Blandið vel.
4. Bætið nú kartöflunum og kúrbítinum við og hrærið vel saman.
5. Setjið bökunarpappír í kökumót eða notið eldfast mót. Hellið blöndunni jafnt í form eftir smekk.
6. Skerið tómatana í þunnar sneiðar og raðið ofan á og stráið örlitlum pipar yfir.
7. Bakið í 45-60 mínútur og fylgist með hvort bakan sé tilbúin með því að stinga eða tannstöngli í hana. Ef hann kemur hreinn upp er bakan tilbúin.
8. Látið bökuna kólna vel og ‘‘þéttast’’ áður en hún er losuð frá og/eða skorin í sundur.
9. Berið fram með örlítilli hágæða olíu og ferskum pipar.
Njótið ótrúlega vel!


Kjúklingabaunahveiti er aldagamalt hráefni sem á rætur sínar að rekja í matargerð margra landa á Indlandsskaganum. Hveitið er einfaldlega gert úr möluðum kjúklingabaunum og er þess vegna náttúrulega glútenlaust, trefja- og próteinríkt. Það er sérstaklega ríkt af fólati en líka járni, magnesíum, fosfór, kopar og mangan.


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Previous
Previous

fylltar paprikur með quinoa & baunum

Next
Next

lasagne með basilkremi