lasagne með basilkremi
Það er eitthvað sérstaklega notalegt við að búa til rjúkandi lasagne á köldum vetrardögum. Mig langaði að gera þennan klassíska rétt aðeins öðruvísi með glútenlausum plötum úr linsubaunum og basilkremi úr kasjúhnetum. 7 lög af ótrúlega bragðgóðum hráefnum, þessi ofnréttur er einn af þeim bestu.
UPPSKRIFT / fyrir 6
1 laukur
2 stangir sellerí
4-5 miðlungs gulrætur
1 eggaldin
1 kúrbítur
1/2 bolli quinoa
500gr tómatpassata/hrein tómatsósa
3 msk ítölsk kryddblanda
1 pakki pastaplötur - sjá mynd *
Hemp parm eftir smekk - sjá mynd **
Piccolo tómatar til að skreyta
S&P
Basil krem
2 bollar kasjúhnetur
1 bolli vatn
4 hvítlauksgeirar
30gr fersk basilika
1/2 sítróna
*Ég nota glútenfrítt pasta, þessar plötur eru þær bestu sem ég hef fundið og það þarf ekki að sjóða þær fyrst. Frá Explore Cuisine og fæst í Vegan búðinni.
**Þessi parmesan er blanda af næringargeri, fræjum og/eða hnetum en það er auðveldlega hægt að útbúa það sama heima! Fæst í Vegan búðinni.
1. Byrjið á því að setja kasjúhneturnar í bleyti með því að hella sjóðandi vatni yfir þær - passið að hafa vatnið vel yfir öllum hnetunum. Látið liggja í bleyti í allavega hálftíma.
2. Sjóðið quinoa eftir leiðbeiningum.
3. Fínskerið lauk og steikið í nokkrar mínútur þangað til hann verður gylltur.
4. Fínskerið sellerí og gulrætur og bætið út í.
5. Skerið kúrbít og eggaldin í litla bita og bætið við, steikið örlítið.
6. Bætið tómatsósunni út í ásamt ítalskri kryddblöndu og látið malla á miðlungs hita.
7. Bætið quinoa við blönduna.
8. Sigtið kasjúhneturnar og skolið. Þær ættu að vera orðnar mjúkar og farnar að tútna út.
9. Setjið hneturnar í blandara ásamt einum bolla af vatni, kreistri sítrónu, hvítlauk og basiliku. Blandið í nokkrar mínútur og fylgist með, áferðin ætti að verða mjög kremuð en þarf ekki að vera fullkomnlega kekkjalaus.
Ef blandan er of þykk og blandarinn ræður ekki vel við hana, bætið þá örlítilu vatni eða sítrónusafa við.
10. Nú er komið að því að raða öllu í eldfast mót, raðið svona:
1/3 af basilkremi í botninn
1/3 af grænmetisblöndu
Pasta plötur
1/3 basilkrem
1/3 grænmetisblanda
Pasta plötur
1/3 basilkrem
1/3 grænmetisblanda
11. Dreifið hemp parm eða parmesan að eigin vali jafnt yfir allt ásamt örlítilli ítalskri kryddblöndu.
12. Toppið réttinn með íslenskum piccolo tómötum á grein.
13. Bakið á 180*c í 30-40 mínútur.
Ég kaupi íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.