fylltur kúrbítur með linsubauna taco fyllingu


AfterlightImage 4.jpg

Þessi uppskrift er ótrúlega góð og djúsí en líka fersk og létt í magann. Taco fyllingin er úr linsubaunum og quinoa en þessi næringarríku hráefni eru fullkomin í staðinn fyrir soya hakk - ég mæli líka með að nota þessa fyllingu í vefjur og aðrar mexíkóskar uppskriftir. Toppið með fersku salsa, kóríander og meira chili. Njótið ótrúlega vel!

UPPSKRIFT / fyrir 4-6

2 stk kúrbítur / u.þ.b. 700gr
1 lítil dós gular baunir, lífrænar
kóríander eftir smekk
oatly sýrður

taco fylling
1 laukur
8 hvítlauksrif
2 msk tómatpúrra
2 tsk ancho chili / reykt paprika
2 tsk kúmen
2 tsk oregano
1 dós hakkaðir tómatar
1 bolli grænar linsubaunir
1/2 bolli rautt quinoa
S&P

tómatsalsa
6 íslenskir tómatar / ein askja
1 rauðlaukur
kóríander eftir smekk
1 grænn chili
1 lime
S&P

*Ancho chili og reykt paprika gefa bæði BBQ bragð. Það virkar líka mjög vel að nota 50/50 venjulega papriku og chili til að sleppa við reykta bragðið.

*Grænar linsubaunir passa vel í þessu tilviki því þær halda sér vel og eru grófari en aðrar týpur. Rautt quinoa hentar einnig mjög vel í þessa uppskrift því það er grófara og heldur sér betur en það ljósa. fyllingin verður ótrúlega góð með ‘‘biti’’ í.


AÐFERÐ

1. Hitið ofninn á 180*c.
2. Sjóðið linsubaunirnar og quinoa samkvæmt leiðbeiningum.
3. Fínskerið laukinn og steikið þar til mjúkur og ilmandi. Bætið hvítlauk, tómatpúrru og kryddum við laukinnn og látið malla í nokkrar mínútur.
4. Skolið og sigtið quinoa og linsubaunirnar og bætið út á pönnuna ásamt hökkuðum tómötum.
5. Skerið kúrbítinn í mjög þunnar sneiðar. Mandólín eða rifjárn hjálpar til við að hafa sneiðarnar þunnar. Sneiðarnar þurfa alls ekki að vera fullkomnar, en því þynnri því auðveldara er að rúlla þeim upp.
(Ef það er erfitt að rúlla sneiðunum virkar vel að leggja þær á bökunarplötu og baka þær í nokkrar mínútur, þá mýkjast þær örlítið. Notið salt og pipar en sleppið olíu).
6. Raðið upp u.þ.b. 3 sneiðum og setjið 2 msk af fyllingu í hverja rúllu og raðið upp í eldfast mót. Bakið í u.þ.b. 30 mínútur.
7. Skerið niður öll hráefnin í salsa og blandið saman.
8. Raðið oatly sýrðum, salsa og gulum baunum á rúllurnar og berið fram.


Previous
Previous

litlar kúrbíts- & kjúklingabaunabökur

Next
Next

fajitas grænmeti & ananas salsa