gnocchi með ferskri tómatsósu & krænkálskurli


AfterlightImage 5.jpg

Gnocchi eru litlir ítalskir ‘‘koddar’’ oftast gerðir úr kartöflum og durum hveiti en innihaldið getur þó verið misjafnt. Á sumrin finnst mér best að borða einfalt og ferskt en ég gerði tómatsósu frá grunni með íslenskum tómötum - hún er fljótleg og ótrúlega bragðgóð. Vanalega nota ég ekki mikla fljótandi fitu eins og olíur en í þessa sósu má setja vel af lífrænni, hágæða ólífuolíu. Til gamans bætti ég við bökuðu grænkáli en það er ný uppskera í búðunum og tekur enga stund að baka. Passar með öllu pasta! Ég lærði að gera gnocchi á Amalfi ströndinni fyrir nokkrum árum en þar tók á móti okkur krúttleg fjölskylda sem rekur veitingastað og sér um lífræna grænmetisræktun - algjör draumur og innblástur að nota ferskustu hráefnin hverju sinni. Einn daginn legg ég í að búa þá til frá grunni aftur en þangað til er þetta fullkomið.

AÐFERÐ / fyrir 2-3

2x 350gr pakkar gnocchi
1/2 laukur
4 hvítlauksrif
350gr litlir íslenskir tómatar
1 ferskt chili
4 greinar ferskt timjan
fersk basilika eftir smekk
S&P

bakað grænkálskurl
klettasalat
ólífur

*Ég notaði gnocchi frá Mr. Organic, það fæst í Vegan búðinni.


AÐFERÐ

1. Fínskerið lauk og hvítlauk og steikið á miðlungs hita í hágæða ólífuolíu þar til glær og ilmandi.
2. Bætið tómötum út á pönnuna ásamt chili, basil og timjan. Saltið og piprið eftir smekk.
3. Eftir nokkrar mínútur mýkjast tómatarnir en þá er auðvelt að kremja þá aðeins og fá vökvann út. Setjið lok á pönnuna og látið malla á miðlungs hita í 15-20 mínútur, hrærið reglulega. Blandan þykkist.
4. Undirbúið grænkálið með því að nudda það með örlítilli olíu og salti. Bakið í 10-15 mínútur á 180*c, blæstri. Sjá nánar hér. Kremjið grænkálið til að búa til kurlið.
5. Sjóðið gnocchi samkvæmt leiðbeiningum og bætið 5-6 msk af vatninu út í tómatsósuna.
6. Blandið gnocchi og fersku tómatsósunni saman og berið fram til dæmis með ólífum, klettasalati og bökuðu grænkálskurli.
Njótið ótrúlega vel!


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Arna Engilbertsdóttir