pasta með basilpestó, valhnetum & hemp


Þessi uppskrift er án efa sú fljótlegasta sem ég hef skrifað. Pestóið er ótrúlega bragðgott og stútfullt af næringu. Hempfræ og valhnetur eru prótein og fiturík hráefni og innihalda meðal annars omega 3 fitusýrur ásamt fjölda vítamína og steinefna. Klettasalatið er ekki síður næringarríkt og gefur bragð sem minnir á pipar. Að lokum er basilikan og hvítlaukur ómissandi með öllu pasta að mínu mati en rétturinn er ótrúlega saðsamur og ferskur.

UPPSKRIFT / fyrir 4-6

500gr lífrænt durum pasta

pestó
30gr fersk basilika
30gr klettasalat
30gr / 1/3 valhnetur
50gr/ 1/3 bolli hempfræ
118ml/ 1/2 bolli hágæða ólífuolía
1 - 1,5 kreist sítróna
3 hvítlauksrif
S&P

*Vegan búðin er með ótrúlega flott úrval af allskonar pasta - lífrænu, durum, glútenlausu og pasta úr baunum. Mæli mjög mikið með því að skoða það!


UPPSKRIFT

1. Byrjið á því að sjóða pasta samkvæmt leiðbeiningum.
2. Blandið öllum hráefnum í pestóið í blandara og smakkið til.
3. Sigtið pastað og blandið öllu saman.
4. Berið fram með meira klettasalati, valhnetum og hempfræjum.
Njótið ótrúlega vel.


Durum heilhveiti á rætur sínar að rekja tíu þúsund ár aftur í tímann og var fyrst ræktað í Eþíópíu og Mið-Austurlöndum. Malað Durum er oft kallað Semolina hveiti og er vinsælt í brauð, pasta og pizzur. Munurinn á unnu og óunnu hveiti er sá að það er ekki búið að taka burt alla næringu frá því óunna. Heilhveiti inniheldur ekki bara kolvetni eins og við hugsum svo oft um heldur líka trefjar, vítamín og steinefni ásamt andoxunarefnum og fleiri gagnlegum næringarefnum. Durum heilhveiti inniheldur til dæmis B1, B2, fólat, járn og magnesíum en best af öllu er hvað það er gott!


Arna Engilbertsdóttir