grillað teriyaki tofu & ananas á spjóti
Grillað tofu og ananas er eitt besta combo á grillið sem ég hef prófað. Uppskriftin er ótrúlega einföld en það er líka auðvelt að taka spjótin með sér í grillpartý sumarsins. Notið steypujárns grillpönnu, venjulegt grill eða bakið þar til gyllt og stökkt að utan - uppskriftin þarf alls ekki að ver nákvæm! Stráið að lokum lime, salthnetum og vorlauk yfir og njótið í botn.
UPPSKRIFT / fyrir 4
u.þ.b. 600gr tofu
u.þ.b. 600gr ananas
1/2 bolli teriyaki / soya / tamari
2 msk rice vinegar
1 tsk hvítlaukur
1 tsk engifer
sesamolía
salthnetur
vorlaukur
lime
*Bambus eða önnur spjót fást í flestum matvörubúðum
*Ég mæli með því að prófa teriyaki/soya/tamari sósurnar frá Clearspring, vörumerkið er ótrúlega vandað, lífrænt og fæst í Nettó og Vegan búðinni.
*Sesamolía gefur örlítið aukabragð en hlutlaus olía virkar líka mjög vel!
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að blanda saman teriyaki sósunni, rice vinegar, hvítlauk og engifer.
2. Skerið tofu í bita og hellið sósunni yfir. Marinerið eins lengi og tími gefst, það er ekki verra að hafa það í ísskápnum yfir nótt. Tofu-ið dregur í sig meira bragð því lengur sem það fær að liggja.
3. Skerið ananasinn í svipað stóra bita og raðið upp á spjótin.
4. Stillið grillpönnu á miðlungs hita og látið hitna vel áður en spjótunum er raðað á pönnuna ásamt sesamolíu og restinni af marineringu.
5. Grillið þar til spjótin fá á sig gylltann lit og grillför.
6. Berið fram heitt og stráið yfir salthnetum, vorlauk og lime eftir smekk.
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.