kremað pasta með sólþurrkuðum tómötum
Þessi réttur er ótrúlega kremaður og mildur en sólþurrkuðu tómatarnir toppa pastað ásamt ristuðum furuhnetum og fersku klettasalati. Ég elska að borða gott pasta af og til og lífrænt durum pasta verður mjög oft fyrir valinu. Ég kynntist durum hveiti á ferðalagi um Ítalíu og finnst það fara mun betur í magann heldur en annað hveiti sem inniheldur glúten - mæli með að prófa þetta fyrir viðkvæma.
UPPSKRIFT / fyrir 4
500gr lífrænt durum pasta eða annað pasta*
u.þ.b. 100gr sólþurrkaðir tómatar
2x 200ml fernur kasjúrjómi*
2 bollar vatn
1/2 bolli tómatpassata
1/2 bolli næringarger
1 lítill laukur
6 hvítlauksrif
1 lífrænn teningur grænmetiskraftur
1 poki / 70gr furuhnetur
Klettasalat eftir smekk
S&P eftir smekk
*Ég nota alltaf kasjúrjómann frá Ecomil Cuisine í pasta. Hann er mjög kremaður og þynnist ekki við eldamennskuna.
*Vegan búðin selur lífrænt durum pasta sem er æðislegt. Mæli líka með bókhveiti pasta fyrir glútenfrítt.
Byrjið á því að setja vatn í pott og fá upp suðu. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum.
2. Fínskerið laukinn og steikið á pönnu með hitaþolinni olíu þar til gylltur og ilmandi.
3. Bætið hvítlauknum við og steikið örlítið lengur.
4. Hitið tvo bolla af vatni og brjótið grænmetisteninginn út í þannig að hann leysist upp.
5. Bætið grænmetissoði, rjóma, passata og næringargeri á pönnuna - blandið vel saman og látið malla í nokkrar mínútur. Lækkið svo hitann.
6. Saltið og piprið eftir smekk, ég setti helling af pipar.
7. Skerið sólþurrkuðu tómatana niður og bætið út í.
8. Látið sósuna kólna og þykkna örlítið. Blandið við pastað.
9. Ristið furuhnetur á vægum hita þar til gylltar.
10. Berið fram með fersku klettasalati og pipar.
Njótið ótrúlega vel!
Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.