spicy núðlur með tamari & chili
Þessi núðluréttur er fljótlegur og rosalega góður. Ég elska allan mat með asísku ívafi og þessi er í miklu uppáhaldi en chili er líklega besta viðbót í mat sem til er. Kosturinn við að gera þennan rétt heima er til dæmis að geta valið hvernig olía er notuð við matreiðsluna, núðlur o.s.f.v. Uppskriftin er alls ekki heilög og hægt er að nota fjölbreytt grænmeti úr ísskápnum í sömu hlutföllum. Mér finnst gott að styðjast við sömu ''sósu'' og bæti alltaf sesamfræjum og sjávarþanginu nori yfir.
UPPSKRIFT / fyrir 2-3
u.þ.b. 200gr blómkál
u.þ.b. 200gr brokkolí
200gr hrísgrjónanúðlur
450gr tofu
1/2 rauð paprika
3 msk soya- eða tamari sósa
1-2 msk chili sambal
1 tsk engifer krydd
1-2 hvítlauks rif
1/2 lime
Muldar salthnetur eftir smekk
Sesamfræ eftir smekk
Kóríander eftir smekk
Nori eftir smekk
*Hér er hægt að nota sesamolíu fyrir meira bragð en það er ekki nauðsynlegt.
*Hér er hægt að bæta við 1 msk af miso en það er ekki nauðsynlegt.
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að sjóða vatn og hella yfir núðlurnar. Þannig munu þær ekki verða klístraðar og festast saman. Látið liggja á meðan þið undirbúið grænmetið.
2. Skerið blómkálið niður og steikið með hágæða olíu. Setjið lokið á og látið malla í nokkrar mínútur. Bætið soya eða tamarisósunni út á pönnuna.
3. Bætið brokkolí á pönnuna ásamt chili sambal, hvítlauk og engifer. Blandið vel saman.
4. Skerið tofu í litla bita og setjið út á pönnuna. Núna ætti blómkálið að vera orðið mjúkt og eldað í gegn.
5. Skerið paprikuna í þunnar sneiðar og bætið út í.
6. Sigtið núðlurnar þegar þær eru orðnar mjúkar og blandið öllu saman.
7. Kreistið lime yfir og bætið muldum salthnetum, sesamfræjum, kóríander og nori eftir smekk.
Njótið vel!