tofu shakshuka & ferskar kryddjurtir
Shakhuka pönnuréttur er fullkominn í hádegismat eða brunch. Shakshuka er hefðbundin máltíð sem á rætur sínar að rekja til Norður-Afríku og er mjög vinsæl í Miðausturlöndum og víðar. Rétturinn er vanalega gerður með eggjum en þessi tofu útgáfa gefur eggjunum ekkert eftir að mínu mati. Smjörbaunirnar eru hlutlausar á bragðið en silkimjúkar og passa mjög vel með ásamt ólífunum. Ég ber réttinn alltaf fram með ofnbökuðu grænmeti og ég mæli mikið með því! Bakið einfaldlega kartöflur, blómkál, brokkolí og hvítkálsbáta á meðan hann mallar í pönnunni.
UPPSKRIFT
1 laukur, fínskorinn
4 hvítlauksrif
1-2 msk hágæða olía
2 msk tómatpúrra
2 lárviðarlauf
3 msk lífrænt næringarger
1 msk paprikukrydd
1 tsk cumin
1 tsk cuminfræ
1 tsk kala namak / indverskt salt
1/2 tsk túrmerik
cayenne pipar eftir smekk
S&P
1 dós lífrænir tómatar
1 dós lífrænar smjörbaunir
2 rauðar paprikur, skornar í bita
300gr lífrænt tofu
lúka lífrænar ólífur
avocado
sesamfræ
blanda af ferskum kryddjurtum
mynta/basilika/kóríander eða eftir smekk
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að steikja lauk og papriku upp úr hágæða olíu þar til mjúkt og ilmandi.
2. Bætið öllum kryddum út á pönnuna ásamt örlitlu vatni. Látið malla í nokkrar mínútur. Saltið og piprið.
3. Bætið tómötum úr dós, sigtuðum smjörbaunum og ólífum út í. Brjótið tofu-ið í litla bita og blandið öllu saman. Setjið lok á pönnuna og látið malla í u.þ.b. 20-30 mínútur.
4. Skerið ferskar kryddjurtir niður ásamt avocado og toppið þegar shaksuka er tilbúin.
Njótið ótrúlega vel!