pottréttur með cajun & linsubaunum


FullSizeRender 8.jpeg

Þessi pottréttur er ótrúlega bragðgóður og léttur í magann. Mér finnst gott að borða pottrétti þrátt fyrir hækkandi sól og hlýrra veður en þá er fullkomið tækifæri að sleppa til dæmis kókosmjólkinni sem gerir heitan mat almennt aðeins þyngri og vetrarlegri að mínu mati. Þessi má malla á eldavélinni lengur ef tími gefst, bragðið verður bara betra. Berið fram með grískri jurtajógúrt eða oatly sýrðum og fersku grænmeti.

UPPSKRIFT / fyrir 4-5 manns

1 laukur
3 meðalstórar gulrætur
2 stilkar sellerí
3 hvítlauksrif
300gr paprika
300gr sæt kartafla
2 bollar grænar linsubaunir
1,5 L vatn
1 msk cajun kryddblanda frá Kryddhúsinu
1 lífrænn grænmetisteningur frá Kallo
1 tsk gróft sinnep
3 lárviðarlauf
S&P

* Cajun kryddblandan frá Kryddhúsinu er sú eina sinnar tegundar sem ég hef fundið á Íslandi, ótrúlega bragðgóð og litrík en á sama tíma mild.
* Áferðin á grænum og/eða brúnum linsubaunum hentar best í þessa uppskrift. Rauðar linsur eru minni og mynda frekar áferð sem minnir á súpu.


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að fínskera lauk, gulrætur, papriku og sellerí og steikja á miðlungs hita þar til grænmetið er mjúkt og ilmandi. Bætið hvítlauknum við.
2. Skerið sætu kartöfluna niður í litla bita. Skolið og sigtið linsubaunirnar og bætið út í pottinn ásamt kartöflunni, kryddunum og vatninu. Saltið og piprið eftir smekk.
3. Fáið upp væga suðu og látið malla í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til kartöflubitarnir eru orðnir mjúkir. Lækkið hitann örlítið og setjið lok á pottinn. Látið malla í 20 mínútur í viðbót. Hrærið reglulega.
Njótið ótrúlega vel!


Linsubaunin er í raun fræ af belgjurtaætt en hún er talin sú elsta af ræktuðum belgjurtum. Sögu hennar má rekja þúsundir ára aftur í tímann til Mið-Austurlanda en baunirnar eru enn mikilvægur partur matarmenningar þar ásamt Vestur-Afríku, Indlandi og víðar. Baunirnar eru prótein og trefjaríkar og innihalda meðal annars B vítamín, fólat, járn, kalíum og zinc. Allar týpur linsubaunanna hafa svipað næringargildi og passa vel í marga ólíka rétti eins og pottrétti, súpur og salöt ásamt grænmetisbuff og bollur.


Previous
Previous

ítölsk ribollita með perlubyggi & fennel

Next
Next

mexíkóskar pinto baunir & brún hrísgrjón