mexíkóskar pinto baunir & brún hrísgrjón


AfterlightImage 3.jpg

Pinto baunir, kartöflur og allskonar krydd gera þennan pottrétt að ótrúlega bragðgóðri og saðsamari máltíð. Rétturinn er með mexíkósku ívafi og ekki skemmir fyrir að bæta smá chili og avocado með. Þegar baunirnar fá nægan tíma til að malla verður bragðið mun meira og áferðin betri - það er líka svo notalegt að gefa sér smá tíma í eldhúsinu. Þessi réttur er líka fullkominn í vefju með grænmeti og salsa.

UPPSKRIFT / fyrir 2-3

1/2 laukur
4 hvítlauksrif
1 msk kúmen
1 msk kóríander
1 tsk oregano / mexíkóskt oregano
2 lárviðarlauf / bay leaf
2 stk rautt chili eða eftir smekk
1 kanilstöng
250gr hreinir pelati tómatar eða tómatar úr dós
250gr þurrkaðar pinto baunir
400gr kartöflur
1 lítri vatn
1 bolli brún hrísgrjón

toppað með
grænt chili eða jalapeño
rauðlauk
avocado
oatly sýrður

*Ég keypti lífrænar pinto baunir frá Suma - þær fást til dæmis á heimkaup.is
Til samanburðar prófaði ég að nota tilbúnar pinto baunir og stytta þar með eldunartímann en þessi útfærsla er óneitanlega mun betri og algjörlega þess virði.


AÐFERÐ

1. Leggið pinto baunirnar í bleyti yfir nótt eða að minnsta kosti 8 klst. Hafið helmingi meira af vatni miðað við baunir því þær stækka töluvert. Skolið baunirnar vel eftir á og geymið í ísskápnum ef þær eru ekki notaðar strax.
2. Byrjið á því að fínskera laukinn og steikja á vægum þar til mjúkur og ilmandi.
3. Bætið hvítlauk, öllum kryddunum og tómötunum út í og hrærið vel.
4. Skerið kartöflurnar í jafna bita og bætið út í ásamt skoluðum pinto baunum og einum lítra af vatni.
5. Fáið upp væga suðu og látið malla í u.þ.b. 1,5 klst. - eða þar til baunirnar eru orðnar mjúkar. Tíminn getur verið örlítið misjafn eftir baunum.
6. Þegar baunirnar eru orðnar mjúkar er gott að slökkva undir pottinum og láta lokið á. Látið pottréttinn kólna í rólegheitunum.
6. Sjóðið brún hrísgrjón eða quinoa.
7. Skerið niður avocado eða annað meðlæti til að toppa með.
Njótið ótrúlega vel!


Pinto baunir eru ómissandi partur matargerðar margra landa bæði í Norður og Suður Ameríku en við þekkjum þær kannski allra helst í Mexíkóskri matargerð. Baunirnar eru mjög næringarríkar og innihalda frábært magn af trefjum og próteinum ásamt fjölda vítamína og steinefna. Þær eru sérstaklega ríkar af B1 eða tíamín, járni, magnesíum, kalíum og fosfór. Tíamín hjálpar til dæmis líkamanum að nýta orku úr fæðunni sem við borðum og styður við ónæmiskerfið okkar. Pinto baunir eru einnig rík uppskretta andoxunarefna sem verja frumur líkamans frá skaðlegum sindurefnum. Baunirnar henta ótrúlega vel í pottrétti, súpur og með bökuðu grænmeti.

Previous
Previous

pottréttur með cajun & linsubaunum

Next
Next

chana masala & sætar franskar