ítölsk ribollita með perlubyggi & fennel


IMG_2990.jpeg

Ribollita er hefðbundin súpa frá Toscana héraði á Ítalíu og tíðkast að nota afgangs brauð í hana. Margar útfærslur eru til af uppskriftinni en hún minnir helst á hálfgerða naglasúpu á besta mögulega hátt. Það má alltaf finna fjölbreytt úrval af grænmeti og baunum í súpunni en í þetta skipti gerði ég stökka brauðteninga til að toppa hana. Súpan er ótrúlega bragðgóð og næringarrík með baunum, heilkorni og fullt af grænmeti. Ég bar súpuna fram með hemp parm sem mér fannst passa ótrúlega vel við ítalskta þemað. Hemp parm er einfalt og fljótlegt að blanda í krukku og eiga alltaf tilbúið til að strá yfir allskonar mat - það geymist lengi og passar með svo mörgu!

UPPSKRIFT / fyrir 4

1 laukur
150gr sellerí
100gr fennel
300gr gulrætur
500gr tómatar úr dós / glerkrukku
1 lítri vatn
1/2 bolli brúnar linsur
1/2 bolli perlubygg
100gr lífrænt grænkál
3 lárviðarlauf / bay leaf
lítil lúka íslensk steinselja
4-6 hvítlauksrif
1 tsk paprika
1/2 tsk chili
S&P

brauðteningar
300gr brauð
2 msk hágæða olía
1 tsk hvítlaukur
S&P

*
Það skiptir ekki máli hvort grænkálið sé frosið eða ferskt, bæði virkar jafn vel. Mér finnst gott að eiga lífrænt grænkál í frystinum til að bæta út í allskonar rétti.
*Ég verð að mæla með frosna Ezekiel brauðinu sem fæst í Vegan búðinni. Brauðið er úr spíruðum heilkornum og er því auðmeltanlegra og stútfullt af næringu.


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að hita ofninn á 200*c blástur.
2. Fínskerið laukinn og steikið á vægum hita með góðri olíu. Skerið sellerí, fennel og gulrætur í litla bita og bætið út í ásamt hvítlauk, papriku og chili. Látið malla í nokkrar mínútur.
3. Bætið við hálfum lítra af vatni ásamt tómötum, steinselju og lárviðarlaufi. Látið malla saman í 15-20 mínútur á vægum hita.
4. Bætið restinni af vatninu í pottinn ásamt perlubyggi og linsubaunum. Fáið upp væga suðu og lokið pottinum. Látið sjóða í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til perlubyggið og linsubaunirnar verða mjúkar.
5. Skerið brauðið niður í teninga og komið fyrir á ofnskúffu. Setjið olíu, hvítlauk, salt og pipar yfir og dreifið vel. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til gylltir og stökkir, fylgist vel með þeim.
6. Slökkvið undir súpunni og leyfið henni að kólna með lokinu á.
7. Berið fram með brauðteningum og hemp parm.
Njótið ótrúlega vel!


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.