tofu tikka masala & brún hrísgrjón


FullSizeRender 39.jpeg

Það þarf varla að kynna Tikka masala fyrir neinum enda einn vinsælasti réttur í indverskri matargerð. Tofu hentar mjög vel í þessa bragðgóðu uppskrift en ef tími gefst má það liggja í sósunni í lengri tíma svo bragðið fái að njóta sín enn betur. Það fylgir oft indverskri matargerð að nota þó nokkuð af kryddum en ég mæli klárlega með því að eiga Garam masala í kryddskúffunni - hún einfaldar mjög margt. Berið fram með lime, sýrðum jurtarjóma og kóríander.

UPPSKRIFT / fyrir 2-4

500gr tofu
2 bollar frosnar grænar baunir
1 bolli lífræn brún hrísgrjón

tikka masala sósa
1/2 laukur
1 tsk kúmen
1 tsk engifer
1/2 tsk chili
1/2 - 1 tsk garam masala
1/4 túrmerik
3 hvítlauksrif
250ml tómat passata
1 dós kókosmjólk
(100 ml vatn)
1/2 lime
S&P

lime
chili
kóríander
sýrður jurtarjómi

*Ég mæli með íslenska tofu-inu frá Thi hollustu.
*Kókosmjólk getur verið mis þykk eftir vörumerkjum, ef ykkur finnst sósan of þykk er hægt að bæta 100ml af vatni út í sósuna.


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að sjóða hrísgrjón samkvæmt leiðbeiningum.
2. Fínskerið laukinn og steikið á pönnu þar til gylltur og ilmandi. Bætið kryddunum við ásamt örlitlu vatni svo þau festist ekki við botninn.
3. Hellið tómat passata og kókosmjólk út í og hrærið vel. Fáið upp væga suðu og látið malla í 10 mínútur. Bætið vatninu við ef ykkur finnst það þurfa en ekki nauðsynlegt.
4. Skerið tofu-ið í litla bita og bætið út í sósuna. Lækkið hitann og lokið pönnunni/pottinum. Látið malla í 20 mínútur.
5. Bætið grænu baununum út í og lokið aftur. Baunirnar þyðna hratt svo 5-10 mínútur ættu að duga. Ef þið hafið aðeins lengri tíma má rétturinn malla lengur, bragðið verður enn betra.
Njótið ótrúlega vel!


Garam masala er indversk kryddblanda sem samanstendur til dæmis af kanil, mace, piparkornum, kóríanderfræjum, kúmenfræjum og kardamommu. Kryddin geta reyndar verið mismunandi eftir svæðum en eiga það sameiginlegt að vera ristuð í heilu lagi til að ná fram svipsterku bragði þeirra áður en þau eru möluð í duft. Garam masala þýðir hlý eða heit krydd en samkvæmt ayurvedísku fræðunum hita þau líkamann upp og örva meltingu. Kryddblandan inniheldur einnig öflug andoxunarefni og getur hjálpað til við að minnka bólgur í líkamanum. Eins og með önnur hráefni er mikilvægt að skoða framleiðanda, innihald og gæði kryddsins en gæðin geta sagt mikið til um virkni þeirra.


Previous
Previous

mexíkósk súpa með baunum & jackfruit

Next
Next

ítölsk ribollita með perlubyggi & fennel