mexíkósk súpa með baunum & jackfruit


Þessi uppskrift er einföld og fljótleg en ótrúlega bragðgóð og matarmikil. Ég hef verið að prófa mig áfram með jackfruit uppá síðkastið, mjög skemmtilegt hráefni sem passar einmitt mjög vel í súpur að mínu mati. Súpan er næringarrík og fullkomin á vetrarkvöldi en ég bar hana fram með avocado, rauðlauk og sýrðum sem gerði hana enn betri. Prófið ykkur endilega áfram með baunirnar, ég er nokkuð viss um að allar baunir passi í súpuna!

UPPSKRIFT / fyrir 3-4

1 laukur
2 stk fersk chili / eftir smekk
1 paprika
1/2 L vatn
1 grænmetisteningur
1 msk paprika
1 msk cumin
1 msk coriander
1 msk oregano
2 dósir / 2x 240gr svartar baunir
1 dós / 400gr tómatar
1 dós / 225gr jackfruit
1 dós kókosmjólk / 400ml jurtarjómi
1 lítil dós gular baunir
1 lime
S&P

Avocado
Rauðlaukur
Lime
Sýrður jurtarjómi

*Ég mæli með að kaupa lífrænar niðursoðnar vörur, dósirnar eru lausar við BPA eða önnur skaðleg efni.
*Ég notaði ókryddað jackfruit í dós frá Biona, fæst í flestum búðum.
*Í staðinn fyrir stök krydd er hægt að nota tilbúna mexíkóska kryddblöndu - ég mæli með Mexíkananum frá Kryddhúsinu.
*Þyngd í dós miðað við hráefni í öðrum umbúðum - þegar búið er að sigta innihaldið úr dósinni frá vatninu.


AÐFERÐ

1. Fínskerið lauk og steikið á vægum hita. Bætið papriku og chili út í og látið malla þar til ilmandi.
2. Sigtið baunirnar og bætið út í ásamt tómötum, kókosmjólk/jurtarjóma. Bætið einnig vatninu, grænmetistening, kreistu lime og kryddi. Saltið og piprið eftir smekk.
3. Sigtið jackfruit og rífið bitana í sundur með gaffli. Fáið upp væga suðu og lokið pottinum. Lækkið örlítið og látið malla í 20-30 mínútur - eða aðeins lengur ef tími gefst.
4. Berið fram til dæmis með avocado, rauðlauk og sýrðum jurtarjóma.
Njótið ótrúlega vel!


Jackfruit er allra stærsti ávöxtur sem vex á trjám. Hann er hrjúfur og grænleitur að utan, gulleitur að innan og óreglulegur í laginu - mjög sérstakur. Jackfruit vex aðallega á suðrænum svæðum og á rætur sínar að rekja til Suður Indlands. Þegar ávöxturinn er ekki fullþroskaður er áferðin
‘‘kjötmikil’’ og hentar vel í matreiðslu eins og hér. Þegar hann er fullþroskaður breytist áferðin og minnir þá bragðið helst á mango að mínu mati - mæli með í smoothie! Jackfruit inniheldur næstum öll vítamín og steinefni sem við þurfum ásamt nokkuð af andoxunarefnum, svo það er tilvalið að prófa sig áfram með þetta frábæra hráefni.


Previous
Previous

íslensk grænmetissúpa

Next
Next

tofu tikka masala & brún hrísgrjón