súkkulaði tart
Þessi ótrúlega góða súkkulaði kaka er úr lífrænu tofu og fullt af bræddu súkkulaði. Kakan er sérstaklega skemmtileg að því leyti að súkkulaðið er valið eftir bragði og smekk; 70% súkkulaði, ljósara súkkulaði, saltkaramellu eða jafnvel appelsínusúkkulaði. Þannig er einnig vel hægt að stjórna sykurmagni kökunnar. Ég prófaði nokkrar týpur af súkkulaði og það er einfaldlega ekki hægt að skemma hana. Tofu-ið gefur silkimjúka og mjög þétta áferð og kakan heldur sér vel bæði köld og við stofuhita.
UPPSKRIFT
Fylling
350gr lífrænt tofu, extra stíft
340 gr lífrænt súkkulaði eftir smekk
200 ml lífræn plöntumjólk
4 msk lífrænn flórsykur
2 msk lífrænt kakóduft
2 msk lífræn kókosolía
1/2 sítróna
Botn
160 gr kexkökur með kremi
1 msk lífræn kókosolía
AÐFERÐ
1. Byrjið á því að bræða 1 msk af kókosolíu og hakka kexkökurnar. Setjið bökunarpappír í botninn og í hliðarnar á hringlaga kökuformi með smellu. Blandið kexkurlinu saman við kókosolíuna og þrýstið vel í botninn á forminu. Kælið í 1/2 - 1 klst.
2. Bræðið súkkulaði og 2 msk af kókosolíu í skál yfir vatnsbaði. Látið súkkulaðið kólna við stofuhita. Setjið restina af hráefnunum saman í kraftmikinn blandara eins og NutriBullet og blandið þar til áferðin er orðin silkimjúk og þétt. Blandið súkkulaðinu saman þegar það hefur náð stofuhita.
3. Hellið súkkulaðifyllingunni í formið og setjið í ísskáp. Kælið í 4 klst eða yfir nótt. Kakan er góð köld úr ísskápnum eða við stofuhita og helst mjög vel.