graskers falafel & villt hrísgrjón


C727B63C-1E10-40D9-98B5-D0C6E5F1F868-A17B1181-4824-434F-B5A9-865855191B00.jpg

Falafel eru ótrúlega góð leið til að bæta góðri næringu við salöt. Þessi skál samanstendur af villtum hrísgrjónum, fersku salati og tahini sósu ásamt sjúklega góðum falafel buffum úr graskeri, kjúklingabaunum og gulrótum. Uppskriftin í heild sinni passar fyrir 4. Ég gerði salatið og notaði aðeins hluta af buffunum í máltíð fyrir 2 - þau eru nefninlega fullkomin til að eiga tilbúin í ísskápnum eða geyma í frysti!

Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.

UPPSKRIFT
18 stk / fyrir 4

graskers falafel
1 miðlungs grasker / u.þ.b. 900gr
300gr krukka kjúklingabaunir
1 stór / 150gr gulrót
1 bolli sesamfræ
2 msk kjúklingabaunahveiti
1 tsk kúmen
1 tsk kóríander
3 hvítlauksrif
S&P

salatið
100gr villt hrísgrjón
1 haus miðlungs brokkolí
200gr ferskt rauðkál
200gr annað kál
1 rauð paprika
kimchi/annað súrkál

tahini sósa
1/4 bolli tahini
2 msk lífrænt eplaedik
2 msk næringarger
1 1/2 msk tamari
1 tsk lífrænt agave síróp
1/2 sítróna

*Kjúklingabaunahveiti er náttúrulega glútenlaust en hér virkar líka að nota brúnt hrísgrjónahveiti eða hveiti eftir smekk. Ef nota skal annað hveiti er gott að byrja á einni matskeið í einu og fylgjast með hvernig blandan þykkist. Kjúklingabaunahveiti fæst víða og heitir ýmist chickpea flour, gram, garbanzo eða besan.
*Villt hrísgrjón fást til dæmis í Vegan búðinni.


AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c og sjóðið villt hrísgrjón eftir leiðbeiningum.

  2. Skrælið og skerið graskerið í jafna bita, takið burt fræin. Setjið bitana í eldfast mót eða í ofnskúffu, setjið örlitla olíu ásamt salti og pipar. Bakið í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til bitarnir verða mjúkir og hægt er að stinga auðveldlega í þá. Látið graskerið kólna þegar það er tilbúið.
    3. Undirbúið sósuna með því að blanda öllum hráefnunum saman ásamt kreistri sítrónu og hrærið vel saman. Ef sósan er of þykk fyrir ykkar smekk er gott að bæta 1 msk af vatni við sósuna.
    4. Rífið gulrótina niður með rifjárni eða skerið fínt niður. Því minni bitar, því betri verður áferðin á falafelinu í lokin.
    5. Skerið brokkolí niður í jafna bita, bætið örlítilli olíu ásamt salti og pipar. Bakið í u.þ.b. 20 mínútur.
    6. Skolið og sigtið kjúklingabaunirnar og setjið í blandara eða stappið með gaffli. Áferðin er gróf en baunirnar ekki í heilu lagi.
    7. Setjið graskersbitana einnig í blandara þegar þeir hafa kólnað vel og blandið þar til þeir hafa allir blandast saman.
    8. Setjið nú kjúklingabaunirnar og graskerið í skál ásamt gulrótunum, kjúklingabaunahveitinu, hvítlauk og kryddum. Blandið vel saman. Áferðin er blaut en helst saman þegar lítið buff er formað.
    Blandan helst betur saman ef hún hefur kólnað vel. Ef áferðin helst enn illa saman er gott að bæta 1 msk af hveiti í viðbót.
    9. Búið til lítil buff sem eru rúmlega 1 msk á stærð. Stráið sesamfræjum á disk og veltið svo buffinu upp úr fæjunum. Það ættu að verða u.þ.b. 18 stk.
    Komið þeim fyrir á bökunarpappír og bakið í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til þau verða örlítið stökk að utan.
    10. Skerið að lokum niður ferska kálið og paprikuna. Ég setti örlitla hágæða olíu með salatinu ásamt salti og pipar. Raðið öllu í skál og berið fram með súrkáli dásamlegri tahini sósu.
    Njótið ótrúlega vel!


Previous
Previous

sesar salat & cajun tofu

Next
Next

perusalat & linsubaunir