sesar salat & cajun tofu


1437E992-F661-44AA-A133-797B9FFF8BAA-55A667DC-5429-4C08-8037-B927FD2D0D90.jpg

Innblásið af sesar salati - ferskt með crunchy brauðteningum og heimagerðri tahini sósu. Tahini er svo frábært í sósur og ég mæli mikið með að prófa þessa. Til að gera salatið meira spennandi bakaði ég tofu með cajun kryddblöndu en bakað tofu verður örlítið stökkt að utan og mjúkt að innan. Cajun kryddblandan er eldrauð og ótrúlega bragðgóð en alls ekki of sterk. Kryddblöndur eru frábærar til að kynnast nýju bragði og breyta til í eldhúsinu, þessi mun ekki klikka. Verið óhrædd við að nota parta af uppskriftinni með öðrum mat, enda passa hráefnin með svo mörgu öðru!

UPPSKRIFT / fyrir 2

salatið
1 askja / 90gr íssalat eða blandað kál
1/2 bolli rautt quinoa / ljóst quinoa virkar líka
u.þ.b. 100gr gulrætur
1/4 íslensk gúrka
1/2 rauðlaukur

cajun tofu
450gr firm tofu
1 msk cajun kryddblanda frá Kryddhúsinu*
1 msk lífræn tamari eða soya
1 msk hágæða, hitaþolin olía
1/2 tsk hvítlaukur

brauðteningar*
150gr súrdeigsbrauð
2-3 msk hágæða, hitaþolin olía
1/2 tsk hvítlaukur
S&P eftir smekk

sesar tahini sósa*
1/4 bolli tahini / 50ml
2 sítrónur kreistar
4 msk vatn
4 msk næringarger
2 msk lífrænt sinnep
1-2 tsk hágæða ólífuolía
S&P eftir smekk

*Cajun kryddblandan frá Kryddhúsinu fæst víða, sú langbesta sem ég hef fundið hingað til.
*Ég notaði súrdeigsbrauð en hægt er að nota flest brauð, einnig er hægt að kaupa tilbúna brauðteninga, skoðið endilega gæði vörunnar.
*Það þarf alls ekki að búa allt til frá grunni og hægt er að kaupa margar mjög góðar tilbúnar sósur. Mæli til dæmis með lífræna vörumerkinu Bonsan.


AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c blástur og sjóða quinoa eftir leiðbeiningum.
    2. Skerið tofu niður í frekar litla bita, kryddið með cajun blöndunni, hvítlauk, olíu og tamari. Blandið vel saman og látið marinerast á meðan þið undirbúið brauðteningana.
    3. Skerið brauð niður í jafna bita og blandið olíu, hvítlauk, salti og pipar. Blandið vel saman.
    4. Komið brauðteningunum fyrir á bökunarpappír og dreifið úr þeim. Bakið í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til gylltir - fylgist vel með að þeir brenni ekki. Ef bitarnir eru litlir gætu þeir þurft styttri tíma.
    5. Þegar tofu-ið hefur fengið smá tíma til að taka við kryddinu, komið því þá fyrir á bökunarpappír og bakið í u.þ.b. hálftíma. Liturinn verður gylltur og áferðin örlítið stökk að utan.
    6. Blandið nú öllum hráefnum í sósuna og hrærið vel saman. Ef sósan er of þykk er got að bæta 1 msk af vatni í viðbót.
    7. Rífið niður gulrætur og skerið gúrkuna og rauðlaukinn niður. Blandið saman við kálið.
    8. Blandið tilbúna tofu-inu, brauðteningum og quinoa saman við salatið.
    9. Best er að hafa sósuna til hliðar svo að salatið haldist sem ferskast.
    Njótið ótrúlega vel!


Ég nota íslenskar og/eða lífrænar afurðir eftir bestu getu og hvet ykkur til að gera það sama. Þessir valkostir eru betri fyrir jörðina okkar og líkamann.


Previous
Previous

ferskar vorrúllur með tempeh

Next
Next

graskers falafel & villt hrísgrjón