ferskar vorrúllur með tempeh
Með hækkandi sól fer ég alltaf að hugsa um ferskari og léttari mat. Þessar vorrúllur eru léttar í magann en það kemur á óvart hversu mettandi þær eru. Þótt það sé ekki alveg komið vor er nauðsynlegt að láta sér hlakka til betra veðurs og þessar litríku henta svo sannarlega með því. Uppskrifitn má vera frjálsleg og notið endilega það grænmeti sem þið eigið til. Hrísgrjónablöðin eru misstór eftir vörumerkjum og gæti verið að grænmetismagnið verði örlítið minna eða meira. Njótið ótrúlega vel!
UPPSKRIFT
1 pakki hrísgrónapappír / u.þ.b. 10 blöð*
Salat blanda - ég notaði frá Vaxa
u.þ.b. 250gr rauðkál
6 gulrætur
2 paprikur
3 stilkar vorlaukur
kóríander eftir smekk
muldar salthnetur eftir smekk
sesamfræ
1 pakki / 270gr lífrænt tempeh*
1/2 appelsína kreist
1 msk möndlusmjör
2 msk tamari
2 hvítlauksrif
sósa
1/2 appelsína kreist
2 msk möndlusmjör eða hnetusmjör
1-2 msk vatn
1 tsk miso
1 tsk chili sambal
*Lífrænt tempeh fæst til dæmis í Vegan búðinni
*Hrísgrjónablöðin eru misstór eftir vörumerkjum, ég notaði frá Blue Dragon og þau eru í stærra lagi.
AÐFERÐ
1. Hitið ofninn á 180*c blástur.
2. Skerið tempeh í lengjur og blandið möndlusmjöri, tamari, hvítlauk og kreistri appelsínu í skál. Leggið tempeh bitana í marineringu í 15-20 mínútur ef tími gefst. Bakið í 15-20 mínútur og snúið við þegar tíminn er hálfnaður.
3. Skerið gulrætur, rauðkál og papriku í þunnar lengjur. Skerið einnig kóríander, vorlauk og saltnetur.
4. Setjið heitt vatn í ílát sem er nógu stórt fyrir hrísgrónapapprírinn, ég notaði disk.
5. Látið eitt blað liggja í vatninu í u.þ.b. 10 sekúndur eða þar til það verður mjúkt. Færið blaðið yfir á þurrt yfirborð og raðið kálinu, ferska grænmetinu, tempeh og sesamfræjum í miðjuna. Lokið vefjunni með því að brjóta hana saman. Sjá myndir! Best er að klára eina vefju í einu.
6. Hrærið hráefnunum í sósuna saman og þynnið með vatni ef hún er of þykk.
Tempeh á rætur sínar að rekja til Indónesíu og er í raun gerjaðar soyabaunir sem eru mótaðar í form eins og sést á myndinni til hliðar. Þegar tempeh er búið til eru baunirnar soðnar í heilu lagi og svo settar í bleyti. Að því loknu er þeim komið fyrir í form þar sem þær eru látnar gerjast. Við gerjunina bindast baunirnar saman. Tempeh er próteinríkt ásamt járni, magnesíum og kalki meðal annars. Eins og með aðrar soyavörur er mikilvægt að soða gæði þeirra og ég hvet ykkur til að kaupa þær lífrænar.