perusalat & linsubaunir


6F4E10A7-69F2-45FE-AA09-232CA34FE080-547623B6-CB51-4763-A3DE-E8B50579AFB5.jpg

Það kemur á óvart hversu matarmikið þetta perusalat er en það er algjör snilld að bæta baunum í salöt. Hér er nóg af sætum perum, sólþurrkuðum tómötum og balsamic ásamt grasgersfræjum og furuhnetum.

UPPSKRIFT / fyrir 2-4

2 perur
200gr grænkál
200gr annað kál eftir smekk
1/2 bolli / 64gr grænar linsubaunir
1/2 bolli / 64gr sólþurrkaðir tómatar
50gr graskersfræ
50gr furuhnetur
2-3 döðlur
Rauðlaukur eftir smekk
Balsamic eftir smekk


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að sjóða linsubaunirnar samkvæmt leiðbeiningum á pakkningum.
2. Hitið pönnu á lágum hita og ristið graskersfræ og furuhnetur saman þar til hneturnar verða gylltar.
3. Rífið grænkálið af stönglinum og nuddið það með örfáum dropum af hágæða ólífuolíu.
4. Ef sólþurrkuðu tómatarnir liggja í olíu, sigtið þá mesta olíu frá. Salatið verður of blautt ef öll olían fylgir.
5. Skerið perurnar, döðlurnar og rauðlaukinn niður og blandið saman.
6. Látið linsubaunirnar kólna áður en þeim er bætt við salatið.
7. Hellið balsamic yfir salatið eftir smekk.
Njótið vel!


Besta leiðin til að undirbúa ferskt grænkál er að nudda það, með eða án örlítilli hágæða olíu og þannig mýkja grófu áferðina sem getur oft verið á kálinu. Bakað grænkál verður stökkt eins og snakk en það má líka bæta kálinu í súpur, pottrétti og ekki síst í djús eða boost. Grænkál er algjört ofurfæði og við erum svo heppin að fá íslenskt grænkál næstum allt árið um kring nema yfir allra hörðustu vetrarmánuði. Það er einnig auðvelt að rækta kálið heima og krefst ræktunin frekar lítillar athygli. Grænkál er ótrulega ríkt af vítamínum eins og A, K og C ásamt mangan, kalki, magnesíum og kalíum.


Arna Engilbertsdóttir