stökkt edamame salat


FullSizeRender 5.jpeg

Þetta salat er svo sumarlegt og ótrúlega ferskt. Mig langaði í stökkt salat með góðri áferð og urðu þess vegna grófar baunaspírur, sykurbaunir og edamame baunir fyrir valinu. Ég mæli með að nota romain kál eða íssalat í þessa uppskrift því það heldur sér betur þegar salatinu er blandað saman. Hnetusósan passar ótrúlega vel með salatinu og mangóið gefur sætu á móti. Toppið með salthnetum og vorlauk, þetta getur ekki klikkað!

UPPSKRIFT / fyrir 3-4

1/2 bolli rautt quinoa
150gr frosnar edamame baunir
150gr ferskt rauðkál
1 lítill romain kálhaus / stór lúka íssalat
150gr paprika
100gr gulrætur
100gr salthnetur
50gr grófar baunaspírur
50gr sykurbaunir
1 mangó
vorlaukur eftir smekk

hnetusósa
3 msk hnetusmjör
2 msk hrísgrjónaedik (ekki nauðsynlegt)
2 msk soya / tamari
1 msk siraracha / chili sambal
1 cm ferskt engifer
1 hvítlauksrif
1/2 lime


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að sjóða quinoa samkvæmt leiðbeiningum.
2. Skerið allt grænmetið ásamt mangóinu í bita. Rífið gulræturnar og rauðkálið niður með rifjárni eða mandólíni.
3. Skolið og sigtið quinoa. Setjið hreint vatn í pottinn og fáið upp suðu. Bætið frosnu edamame baununum út í og sjóðið í 3-4 mínútur.
4. Blandið öllum hráefnum saman í hnetusósuna og bætið örlitlu vatni við ef hún er of þykk. Kreistið hvítlaukinn og engifer út í sósuna, smakkið til.
5. Blandið að lokum öllu saman í salatið ásamt sósunni, njótið ótrúlega vel!


Edamame þýðir ‘‘baunir á grein’’ á kínversku en talið er að baunirnar hafi fyrst verið ræktaðar í Kína. Baunirnar eru stór partur af matargerð í Austur- Asíu en njóta einnig mikilla vinsælda um allan heim. Edamame baunir eru grænar sojabaunir og vaxa í grænum belgjum. Baunirnar eru ekki fullþroska þegar þær eru týndar sem útskýrir meðal annars hversu sætar þær eru á bragðið. Þetta þýðir þó ekki að baunirnar séu verri en fullþroskaðar baunir heldur breytist næringargildi baunanna hverju sinni í ræktuninni. Edamame baunir eru prótein og trefjaríkar og innihalda allar nauðsynlegar amínósýrur fyrir líkamann. Baunirnar innihalda til dæmis hærra magn af K vítamíni, fólati og mangan heldur en fullþroskaðar sojabaunir.


Previous
Previous

cajun seljurót, granatepli & perlubygg

Next
Next

samloka með tofu, nori & sinnepi